Markmiðið að álverið verði vinnustaðurinn sem fólkið velur

Brasilíumaðurinn Fernando Costa tók í byrjun nóvember til starfa sem forstjóri Alcoa Fjarðaáls. Segja má að hann sé fæddur inn í Alcoa, faðir hans vann fyrir fyrirtækið og Fernando hefur starfað innan samsteypunnar frá tvítugsaldri. Leið hans til Íslands lá um Bandaríkin en hann segist staðráðinn í að gera sem mest úr tækifærinu til að vinna hérlendis, sem aðeins gefist honum einu sinni.

Fernando er fæddur í suðaustanverði Brasilíu, þar sem faðir hans starfaði hjá Alcoa. Strákurinn var aðeins fjögurra þegar föðurnum bauðst vinna í nýju álveri í norðaustanverðu landinu.

Fernando byrjaði síðan sjálfur að vinna þar árið 2002, að loknu námi í verkfræði. Hann vann síðan fyrir Alcoa í Bandaríkjunum á nokkrum stöðum, síðast í höfuðstöðvunum í Pittsburg sem stjórnandi Alcoa Business System (ABS) í Norður-Ameríku, starfsframakerfi samsteypunnar sem miðar að því að þjálfa fólk upp í réttar stöður innan hennar.

Bjó sig undir tækifærið


Það var síðan síðasta haust sem tækifærið til að koma til Íslands opnaðist. „Það var ekki hrein tilviljun. Í gegnum ABS hafði ég nýtt færið til að læra um bæði rekstur og tæknina að baki álverunum. Ég bætti við mig MBA gráðu til að geta fengið þetta tækifæri,“ segir Fernando Costa.

„Þetta er ekki bara fagleg reynsla fyrir mig heldur líka lífsreynsla. Ég er bæði bandarískur og brasilískur ríkisborgari. Ég gæti hvenær sem er unnið í þessum löndum eða tekið fljótlega við álveri í Bandaríkjunum eða Kanada.

Að búa og starfa hér er tækifæri sem gefst bara einu sinni á ævinni, hvort heldur sem er fyrir mig eða fjölskyldu mína. Við viljum geta horft til baka og sagt að við þekkjum Ísland og íslenska menningu því við höfum búið þar. Það var því nú eða aldrei að taka starfinu hér. Þess vegna sagði ég strax já þegar starfið bauðst.“

Álverið á Reyðarfirði er það nýjasta sem að fullu er í eigu Alcoa. Það er því í miklum metum innan samsteypunnar. „Það er ein mikilvægasta eign fyrirtækisins og hefur mikla möguleika. Þess vegna eru væntingar um að Fjarðaál verði stöðugasta álver Alcoa.“

Vill minnka starfsmannaveltuna


Aðspurður um helstu áskoranir í rekstri álversins á Reyðarfirði nefnir Fernando starfsmannaveltuna sem verður til þess að þekking tapast. „Ég get sagt, af fenginni reynslu innan ólíkra eininga Alcoa, að starfsfólk Fjarðaáls er ótrúlega fært. En veltan á því er eitt af því sem kemur í veg fyrir að við náum eins miklum stöðugleika og kostur er á. Veltan er mismunandi á milli deilda en þar sem hún er mest nær hún 20% og það veldur okkur áhyggjum.

Atvinnuástandið hér á Austfjörðum er ótrúlega gott og atvinnuleysi lítið. Hér eru ótrúlega öflug fyrirtæki. Það getur þó skapað áskoranir fyrir fyrirtæki því starfsfólk getur valið á milli vinnuveitenda. Þess vegna verðum við að verða vinnustaðurinn sem fólkið velur.

Árið 2024 leggjum við áherslu á þrjú atriði í rekstrinum: Fólkið er það mikilvægasta. Hin eru stöðugleiki og framleiðni. Hvað fólkið varðar þá er það okkar markmið að verða sá vinnustaður sem fólkið velur. Við erum með frábæra stjórnendur sem eru í góðum samskiptum, flotta hvata og frábært og öruggt vinnuumhverfi. Við vitum hvað við þurfum að gera en það tekur tíma.

Stærsta málið er að skilja hvað fólkið vill. Það er áskorun því fólk hefur ólíkar þarfir eftir því á hvaða æviskeiði það er. Starfsmannaveltan er hæst hjá fólkinu sem hefur verið styst, hér er hún á fyrstu tveimur starfsárunum. Við erum með nýja kynslóð sem hefur aðrar væntingar til starfsþróunar sinnar. Þessir einstaklingar eru ekki endilega vissir um að þeir vilji starfa hér næstu 20 árin. Ef við getum bætt úr því þá dregur það verulega úr starfsmannaveltunni.“

Fjölskyldan ánægð á Reyðarfirði


Fernando býr á Reyðarfirði ásamt konu sinni og tveimur sonum, sem verða sjö og fimm ára í vor. Hann segir þau ánægð hérlendis. „Við höfum verið hér í fjóra mánuði og þeir hafa verið nákvæmlega eins og við óskuðum okkur: ótrúleg reynsla. Fjölskyldunni finnst frábært að vera hér. Konan mín er ævintýragjörn og elskar náttúruna. Ég var alltaf viss um að hún yrði ánægð hér.

Strákarnir eru líka ánægðir. Fyrsta daginn sem þeir fóru í skólann var stór skafl fyrir utan og þeir voru að renna sér niður hann. Þegar þeir komu heim sögðu þeir okkur frá því hvað það hefði verið gaman að gera það með hinum krökkunum.“

Fernando hefur ekki farið frá landinu síðan hann tók við, hann segir verkefnin vera næg þótt hann viti að hann þurfi að taka sér frí eftir einhverja mánuði. Fjölskyldan skrapp aðeins til Reykjavíkur yfir jólin. Hann segist ekki hafa upplifað neitt menningarsjokk enn og að honum hafi verið vel tekið. „Samskipti mín við fólkið hér hafa undantekningarlaust verið jákvæð. Það heilsar mér brosandi á hverjum morgni. Ég hef aldrei kynnst slíkri kurteisi.“

Hlakkar til að prófa flugdrekabrettin á Leginum


Utan vinnunar eru flugdrekabretti eða „kite-surfing“ helsta áhugamál Fernandos. Þá sigla menn um öldurnar á brimbretti dregnir áfram af flugdreka sem þeir halda í. „Þetta veltur mikið á veðrinu og öðru slíku en þetta er uppáhaldið mitt. Og hvort sem þið trúið því eða ekki þá skilst mér að það sé hópur með svona bretti á Egilsstöðum. Það er starfsmaður hér sem hefur boðið mér að koma með þeim á Lagarfljótið, en mér skilst að það sé líka hægt að fara hér út á fjörðinn.

Íþróttin sem ég hef mest stundað síðustu þrjú ár er CrossFit. Ég er að komast aftur í gang í því, ég datt aðeins úr takti þegar við fluttum. Ég er farinn að mæta á Eyrina.“

Fernando er líka farinn að læra íslensku. „Það eru tvær megin ástæður fyrir að ég ákvað að læra íslensku. Í fyrsta lagi langar mig að sjá hvað ég get lært, kannski kem ég sjálfum mér á óvart og verð orðinn altalandi eftir þrjú ár. Það væri frábært. Ég vil alla vegana ekki sjá eftir því þá að hafa ekki reynt. Í öðru lagi þá finnst mér það að læra málið vera virðing gagnvart samfélaginu og menningunni, sem hefur sýnt mér mikla virðingu með að tala ensku til að létta mér lífið.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.