Fernando Costa nýr forstjóri Alcoa Fjarðaáls

Fernando Costa hefur verið ráðinn forstjóri Alcoa Fjarðaáls. Hann er Brasilíumaður sem starfað hefur innan Alcoa þar og í Bandaríkjunum í um 20 ár.

Fernando er tekinn til starfa og hefur verið kynntur fyrir starfsfólki álversins á Reyðarfirði. Í tilkynningu kemur fram að hann hafi á starfsmannafundi sagt fjölskylduna hlakka til að takast á við þær miklu breytingar og tækifæri sem flutningurinn til Íslands feli í sér. Hann hafi einnig sagst vilja vera hvetjandi leiðtogi sem geri öðrum kleift að gera sitt besta.

Fernando hóf störf í Alumar álverinu í Brasilíu árið 2002. Hann stýrði þar meðal annars ferlaþróun og rekstri kerskála.

Hann flutti árið 2015 til Bandaríkjanna aþr sem hann hefur gegnt ýmsum störfum. Síðast var hann svæðisstjóri viðskiptakerfis Alcoa (Alcoa Business System) í Norður-Ameríku með aðsetur í Pittsburgh.

Fernando er með MBA gráðu frá Fundacao Getulio Vargas í Brasilíu og Executive MBA gráðu frá Háskólanum í Pittsburgh.

Hann mun setjast að á Reyðarfirði ásamt eiginkonu og tveimur sonum. Dóttir þeirra verður eftir í Bandaríkjunum þar sem hún stundar háskólanám.

Fernando tekur við af Smára Kristinssyni sem verður aftur framkvæmdastjóri framleiðslu. Smári tók við forstjórastarfinu tímabundið þegar Einar Þorsteinsson lét af störfum fyrr á þessu ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.