Skip to main content

María á fullri ferð í Hlíðafjalli

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. feb 2009 15:02Uppfært 08. jan 2016 19:19

Námskeið Íþróttasambands Fatlaðra  og Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í samstarfi við NSCD í Winter Park Colorado, USA, fór fram í Hlíðarfjalli dagana 13. - 15. febrúar. Meðal þátttakenda var María Sverrisdóttir frá Egilsstöðum og naut hún aðstoð föður síns við að stýra skíðasleða sem sérhannaður er fyrir hreyfihamlaða.

mara_sverrisdttir__vefur.jpg

Námskeiðið var fullbókað en fatlaðir þátttakendur voru um tuttugu m.a. hreyfihamlaðir, blindir og sjónskertir.    Hreyfihamlaðir þátttakendur fengu sérhannaða skíðasleða til afnota og gátu valið um sleða með tveimur eða einu skíði.  Í hópi þátttakenda var ungt fólk sem hefur verið í meðferð á  Landspítala - endurhæfingardeild (Grensás) eftir að hafa lent alvarlegum slysum og lamast.   Í hópi besta skíðafólks heims meðal fatlaðra eru einstaklingar sem haldið hafa áfram skíðaiðkun á keppnissleðum eftir að hafa lamast í slysum m.a. skíðaslysum!

img_3105vefur.jpg

 Bergvin Oddsson sem er blindur mætti á námskeiðið og skíðaði með aðstoðarmanni sem fer á undan og leiðbeinir.  Alpagreinar og norrænar greinar eru mjög vinsælar keppnisgreinar meðal blindra sem keppa á Vetrarólympíuleikum fatlaðra.  

Aðalleiðbeinandi var Beth Fox, forsvarsmaður NSCD í Winter Park ( National Sport Center for disabled)  Auk hennar var leiðbeinandi Herbert Wintel frá þýskalandi og kona hans Hannelore.  Herbert er fatlaður skiðamaður sem hefur byggt upp vetraríþróttir fyrir fötluð  börn og unglinga í Þýskalandi og hefur m.a. þjálfað Breka Arnarsson, ungan efnilegan skíðamann sem bjó erlendis en býr nú á Akureyri.  

Markmið er að þjálfa íslenska leiðbeinendur á þessu sviði og var áhersla lögð á ráðgjöf og aðstoð við aðstoðarfólk, jafnt skíðakennara, þjálfara sem aðstandendur.  Samstarf við Winter Park í Colorado byggir á ráðgjöf, kennslu en einnig aðstoð við íslenskt skíðafólk sem vill æfa erlendis.

Námskeiðið gekk mjög vel og allir þátttakendur tóku virkan þátt í dagskránni með aðstoð leiðbeinenda og aðstoðarfólks.  Alls var hópur fatlaðra þátttakenda, aðstandenda, leiðbeinenda og aðstoðarfólks um 60 manns.  Þátttakendur komu frá Reykjavík og nágrenni, Selfossi, Akureyri, Isafirði, Egilstöðum og Húsavík. Í tengslum við námskeiðið var haldinn opinn kynningarfundur á Akureyri föstudaginn 13. febrúar og kynning Háskólanum á Akureyri fyrir nemendur í iðjuþjálfun.

Fleiri myndir frá námskeiðinu eru á www.123.is/if     Myndataka; AKV

Á  heimasíðu ÍF, fréttatilkynning fyrir námskeið og efni frá námskeiði                      www.ifsport.is