Skip to main content

Lofsamleg gagnrýni á hljómplötu frá Stöðvarfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jan 2025 14:48Uppfært 30. jan 2025 14:50

Tónlistargagnrýnendur telja fyrstu breiðskífu bandarísku tónlistarkonunnar Kathryn Mohr meðal þeirra sem áhugaverðustu sem komið hafa út á þessu ári. Platan var að miklu leyti samin og tekin upp á Stöðvarfirði.


Platan er nýkomin út og rétt byrjuð að fá spilunum og dóma en þeir eru jákvæðir sem komið er. Þannig gefur Pitchfork, einn helsti tónlistarmiðill heims, henni 8,4 í einkunn sem kemur henni í flokkinn „besta nýja tónlistin.“

Tímaritið Treble setur hana í flokk með bestu plötum vikunnar. Meðal þeirra sem eiga aðrar plötur þess lista eru stór nöfn úr tónlistarheiminum á borð við FKA Twigs, Mogwai og Iggy Pop.

Gagnrýnendur gera almennt mikið úr því að platan sé tekin upp í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði, fyrrverandi frystihúsi. Einn segir að tónlist Katryn dragi mjög dám af því umhverfi sem hún sé samin og tekin upp í. Að þessu sinni sé auðnin úr afskekktu íslensku sjávarplássi allt umlykjandi.

Seint má þó búast við að lögin komist í almenna útvarpsspilunum hérlendis. Þau eru dimm og hrá, gítarinn er stilltur á djúpar tóntegundir og Katryn syngur ekki heldur sönglar yfir.

Hún kemur frá Bandaríkjunum og dvali í Sköpunarmiðstöðinni í ágúst 2023. Á heimasíðu miðstöðvarinnar segir að Kathryn hafi komið sér upp vinnustofu á efri hæð hússins með útsýni yfir fjörðinn. Hún hafi stytt sér stundir með gönguferðum meðfram sjónum, safnað munum sem skolaði á land og unnið úr þeim skúlptúra.

Mynd: Marko Umicevic