Skip to main content

Ljóðskáldið sem ætlaði að verða heimsfræg rokkstjarna úr Neskaupstað

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. feb 2025 19:19Uppfært 18. feb 2025 19:19

Jón Knútur Ásmundsson sendi í fyrra frá sér ljóðabókina Slög, þar sem hann veltir fyrir sér æskunni í Neskaupstað, tímans gangi og daglegri tilveru. Ljóðin bera keim af áhyggjum af tímans gangi, en heilsubrestur varð til þess að Jón Knútur fór að líta tilveruna öðrum augum.

Æska sem mótaði skáldið


Bernsku- og unglingsár Jóns Knúts í Neskaupstað skiptu sköpum fyrir sköpunarferil hans. Hann ólst upp í Neskaupstað á níunda og tíunda áratugnum og minnist þeirra tíma með hlýju. „Ég átti góða æsku og það var gaman að vera barn og unglingur í Neskaupstað í áttunni og níunni. Ég upplifði mikið frelsi,“ segir hann.

Þetta frelsi hafði mótandi áhrif á viðhorf hans til vinnu og framtíðar. Hann tók snemma þátt í atvinnulífi, stofnaði hljómsveitir og lærði að treysta á eigin getu. „Ég ætlaði að verða heimsfræg rokkstjarna og mér fannst það síður en svo fjarstæðukennt þótt ég byggi í pínulitlu sjávarþorpi lengst austur í rassgati,“ segir hann glettinn.

Samtímis veit hann að hylling fortíðar getur verið varasöm. „Hugurinn leitar aftur til hinna svokölluðu gömlu góðu daga, en ég veit fullvel að öll eigum við okkar gömlu góðu daga. Börnin mín munu eiga þá líka,“ segir hann og bendir á að nýjar kynslóðir skapi sín eigin minningar.

Tíminn, breytingarnar og hjartað


Ljóð Jóns Knúts bera keim af áhyggjum af tímans gangi – hvort sem er með minningum um horfna staði („hún er farin, gamla bryggjan“) eða hugsunum um eigin aldur („Fjörutíu og níu á að íhuga alla kosti vandlega“). Hann viðurkennir að breytingar hafi haft djúp áhrif á sig, ekki síst þegar hann fékk að vita að hann þyrfti að fara í hjartaþræðingu.

„Allt saman gekk það nú bara eins og í sögu en þetta hafði áhrif á mig. Meiri en ég gerði mér kannski grein fyrir,“ segir hann. Að missa föður sinn skömmu áður og stofna fjölskyldu í kjölfarið jók á þessa tilfinningu. „Ég skildi inn að beinmerg að ég er ekki eilífur. Að það sé endahnykkur á þessu öllu saman og að einn góðan veðurdag verði ég ekki lengur til.“

Þrátt fyrir þessar hugsanir lítur hann ekki á tímann sem óvin heldur sem óumflýjanlegan ferðafélaga. „Þetta voru fyrst og fremst bara breytingar þótt ég hefði upplifað þær sem krísu þegar mesta atið var,“ útskýrir hann. Og með breytingum fylgir oft löngun til að leita aftur í einfaldleikann.

Frá Facebook-færslum í ljóðabók


Jón Knútur hóf ekki feril sinn sem ljóðskáld með hefðbundnum hætti. Fyrri bók hans, Stím (2022), spratt upp úr Facebook-færslum og bloggpóstum. Hann lítur á ljóðlistina sem hluta af því að túlka veruleikann. „Blogg, ljóð og Facebook-statusar eru bara viðbrögð við einhverju í tilverunni – allavega eins og ég sé það. Ég skynja ekki alltaf muninn á þessu.“

Að mati hans skiptir einlægni mestu máli þegar kemur að skriftum. „Aðalmálið er bara að þora að vera einlægur. Það er grunnforsenda þess að yrkja ljóð eða skrifa bitastæðan status á Facebook.“

Þrátt fyrir að hafa aldrei hugsað sig sem ljóðskáld fann hann ljóðræna rödd sína smám saman. „Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég fór að lesa ljóð annarra skálda,“ segir hann og nefnir sérstaklega bókina Guðlausir menn eftir Ingunni Snædal sem innblástur.

Breytt samfélag á Austurlandi


Sem fyrrverandi blaðamaður hefur Jón Knútur fylgst vel með breytingum á íslensku samfélagi, ekki síst á Austurlandi. Hann bendir á að fjölbreytileiki íbúa hafi aukist mikið á síðustu tveimur áratugum. „Þegar ég var í grunnskóla var ein útlensk stelpa í skólanum. Í skóla barnanna minna á Reyðarfirði er sennilega um fimmtungur nemenda af erlendum uppruna.“

Hann telur mikilvægt að þessi þróun endurspeglist í samfélagsþátttöku. „Ég vil fleiri innflytjendur í bæjarstjórnir, á Alþingi, í nefndir, í foreldrafélög, í stjórnir íþróttafélaga, í þorrablótsnefndir og svo framvegis. Þá fyrst munum við njóta ávaxtanna af þessum breytingum.“

Skammdegið og sköpunin


Aðspurður um hvað kalli fram skriftir hans segir hann myrkrið og kyrrðina spila stórt hlutverk. „Mér finnst gott að skrifa eldsnemma að morgni í kolsvörtu skammdeginu. Fæ það á tilfinninguna að enginn sjái mig, að ég geti horfið og bara fylgst með eins og fluga á vegg.“

En til þess að skrifa þarf hann að vera í andlegu jafnvægi. „Mér þarf að líða vel. Ég get ekkert skrifað þegar ég er stressaður eða í vondu skapi,“ segir hann að lokum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.