Linnulítil skemmtun í boði á Djúpavogi næstu fjóra sólarhringa
Hammondhátíð Djúpavogs á síðasta ári reyndist vera önnur fjölsóttasta hátíðin þar í bæ frá upphafi þeirrar ágætu bæjarhátíðar. Allt bendir til að gestafjöldinn næstu sólarhringana verði síst minni en þá.
Það er sá tími ársins þegar íbúar og gestir á Djúpavogi gera sér glaðan dag undir yfirskriftinni Hammondhátíð en þar er það hljóðfæri í forgrunni linnulausrar skemmtidagskrár næstu fjóra sólarhringa rúmlega.
Að sögn Ólafs Björnssonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar að þessu sinni, gengur miðasala afar vel og hann segir líklegra en ekki miðað við söluna nú að að aðsókn verði síst minni en fyrir ári síðan.
„Dagskráin hjá okkur þetta árið er metnaðarfull mjög og hugmyndin að tónlistaratriðin séu fjölbreytt og nái til stórs hóps. Það þarf auðvitað ekkert að spyrja að því að bæjarandinn tekur áberandi breytingum í aðdraganda hátíðarinnar og ekki skemmir fyrir að sólin skín á okkur.“
Þar vísar Ólafur til hinnar formlegu dagskrár Hammond hátíðarinnar sem snýst um fyrsta flokks tónleika þekktra listamanna landsins.
Topp listamenn öll kvöldin
Sú dagskrá hefst strax annað kvöld á Hótel Framtíð þegar fjórar frambærilegar tónlistarkonur stíga á stokk og koma gestum í gírinn. Þar um að ræða hinar þekktu söngkonur Nönnu, Rakel og Salóme Katrínu sem flytja sitt með fulltingi hljómsveitar en einnig kemur þar fram heimamanneskjan Ríkey Elísdóttir með sinni eigin hljómsveit.
Kvöld númer tvö engu síðra þegar tónlistarunnendur fá bæði að njóta tónlistar hinnar austfirsku sveitar SúEllen og í kjölfarið stíga ekki minni menn á svið þegar FM Belfast telja niður í sín lög og þar sömuleiðis á Hótel Framtíð. Sá staður er einnig vettvangur tónleika Jónasar Sig og Ritvéla framtíðarinnar þriðja hátíðarkvöldið áður en sjálfur Páll Óskar Hjálmtýsson ásamt hljómsveit troða upp í Djúpavogskirkju lokadag hátíðarinnar á sunnudaginn kemur.
Óformlega dagskráin engu minna spennandi
Því fer þó fjarri að Hammond hátíðin snúist aðeins um fyrirtaks tónleika kvöld eftir kvöld. Allur bærinn tekur þátt með einum eða öðrum hætti og utandagskráin ber þess vitni. Það eru viðburðir sem fram fara annars staðar í bænum næstu dagana og eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir. Þar munar aldeilis um nýjan „skemmtistað“ sem er gamla kirkja bæjarbúa sem áhugasamir hafa verið að einangra og endurbæta í sjálfboðavinnu frá því snemma í vetur. Þar verður kaffi, meðlæti og hæglætismarkaður alla hátíðardagana og reyndar opna dyr kirkjunnar gestum fyrsta sinni að nýju síðdegis í dag.
Timburmannaganga, skotmót, jurtamöndlugerð, sjósund, kökubasar, vígsla Hammond orgelstígsins, skrúðganga og heimildarmyndasýning brot af öðru því sem gestum og gangandi gefst færi á að prófa og kynna sér næstu dagana.
Ólafur lofar öllum góðri skemmtun enda sé þar að finna eitthvað fyrir alla.
„Hugmyndin að sjálfsögðu að allir verði með enda eru það skemmtilegustu hátíðirnar. Ég er þegar farinn að veita því athygli að brottfluttir heimamenn eru mættir á svæðið til að taka þátt og það er spenningur í fólkinu hér. Allir eru velkomnir og enn miða að fá á þessa flottu tónleika sem framundan eru en við munum einnig selja miða í dyrunum fyrir þá sem það kjósa.“
Allar nánari upplýsingar um dagskrá og viðburði má finna á vefnum Hammondhatid.is eða á Hammondhátíð Djúpavogs á Facebook.