Liljurnar syngja í nýjum kjólum

„Þær byrjuðu sem tveggja radda kór en eftir þriggja ára starf voru þær orðnar þriggja radda og eru nú allt upp í fjögra radda,“ segir Margrét Lára Þórarinsdóttir, kórstjóri, en stúlknakórinn Liljurnar halda vortónleika sína í Egilsstaðakirkju í kvöld klukkan 20:00.


Margrét Lára segir að Liljurnar hafi verið stofnaðar sem unglingakór haustið 2011, en hafi síðan þá þróast út í að verða stúlknakór rekinn af Tónlistarskólanum á Egilsstöðum, Egilsstaðakirkju og Menntaskólanum á Egilsstöðum.

„Aldurstakmarkið í kórinn eru stúlkur frá 8.bekk í grunnskóla til loka menntaskóla, eða þar um bil og er þátttaka í kórnum einingabær frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Þessi ár hafa þær verið á bilinum 15 til 20 talsins og hefur hópurinn haldist nokkuð stöðugur frá árin til árs þó það sé alltaf viss endurnýjun alltaf frá vetri til veturs,“ segir Margrét Lára.

Liljur framtíðarinnar á svið í kvöld?
Á tónleikunum í kvöld verða Liljurnar í samstarfi við Tónlistarskólann á Egilsstöðum. „Tónleikarnir hefjast á söng fimm starfandi sönghópa úr tónlistarskólanum, skipaða af nemendum frá öðrum til sjöunda bekkjar, en þeir hafa mjög líklega að geyma einhverjar af Liljum framtíðarinnar. Svo taka Liljurnar við ásamt hljómsveit Tónlistarskólans á Egilsstöðum þar sem þemað er U2, Jesus Christ Superstar, söngleikir og kvikmyndatónlist, gospel, rokk og popp – sem sagt mjög fjölbreytt efnisskrá. Þá munu margar Liljanna einnig syngja einsöngva og dúetta með og án kórsins, en margar Liljanna eru í söngnámi við Tónlistarskólann á Egilsstöðum.“

Söngurinn áhrifameiri í fallegum kjólum
Á tónleikunum verða frumsýndir nýjir kórkjólar, hannaðir og saumaðir af Bríeti Finnsdóttur, nemanda við Menntaskólann á Egilsstöðum og ömmu hennar Kolbrúnu Sigurðardóttur.

„Liljurnar eiga eldri kjóla sem eru fallegir, en þeir eru samt úr óþjálu efni og pössuðu oft á tíðum ekki nógu vel á stúlkurnar, enda keyptir af Alibaba. Kórstjórinn og stjórn kórsins vildu stefna að því að hannaðir yrðu nýir kjólar sem væru sér sauðmaður á hverja stúlku og höfðu þær safnað nokkrum fjármunum fyrir efniskostnaðinum.

Boltinn fór svo að rúlla þegar formaður kórstjórnarinnar, Rán Finnsdóttir hafði samband við systur sína, Bríeti Finnsdóttur sem var í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað á haustuönn 2017 og bað hana um að sauma nýja kjóla á kórinn. Hún tók vel í það og gerði það að lokaverkefni sínu frá Menntaskólanum á Egilsstöðum undir leiðsögn ömmu sinnar, Kolbrúnar Sigurbjörnsdóttur. Bríet fékk á dögunum einkunnina 10 fyrir verkefnið.

Þær gáfu alla sína vinnu við verkefnið og vill kórinn færa þeim sínar bestu þakkir fyrir ómetanlega vinnu við kjólana. Það er svo miklu áhrifameira fyrir kórinn og áheyrendur að horfa á hann í fallegum kjólum tillidögum og við sérstök tækifæri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.