Leikfélag ME frumsýnir Gosa – Myndir
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. feb 2025 14:47 • Uppfært 13. feb 2025 14:54
Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum frumsýnir á laugardag söngleikinn Gosa í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Formaður félagsins segir afar öflugt leiklistarstarf í skólanum.
Söngleikurinn byggir á hinni þekktu sögu um spýtustrákinn Gosa en leikritið er eftir Karl Ágúst Úlfsson og var fyrst sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2007.
Sesselja Ósk Jóhannsdóttir, formaður LME, eyddi síðasta sumri í að skoða möguleg leikverk fyrir veturinn og Gosi varð að lokum fyrir valinu. „Okkur fannst vera kominn tími á barnasýningu. Ég man eftir að hafa séð Gosa sýndan á RÚV þegar ég var barn og fundist það skemmtilegt.
Ég las mig í gegnum eða skoðaði nokkur leikverk í síðasta sumarfríi og valdi þetta að lokum. Það hefur verið gaman að rifja það upp.“
Andrea Katrín Guðmundsdóttir, kennari á Egilsstöðum, er leikstjórinn að þessu sinni en æfingar hófust eftir áramótin.
Leikfélagið hefur verið virkt síðustu ár og ráðist í metnaðarfullar sýningar á söngleikjum, samanber Litlu hryllingsbúðina og Mamma mia á undanförnum árum. „Þetta er trúlega virkasta félagið í skólanum. Við erum með heldur stærri hóp en í fyrra. Við erum með nokkra nýja félaga og ekki bara krakka af fyrsta ári heldur jafnvel af þriðja ári sem eru fyrst núna með,“ segir Sesselja.
Förðunin er eitt af því sem er krefjandi í Gosa. Mikil vinna er við gervi leikara sem þurfa að vera mættir í hús tveimur tímum fyrir sýningar. „Það þarf að búa til trúða, dýr og fleiri gervi. Við erum með sex sminkur sem er óvenju mikið.“
Frumsýning er á laugardag 15. febrúar. Síðan eru skipulagðar fimm sýningar og sú síðasta laugardaginn 22. febrúar.