„Landsvirkjun á að vera í eigu þjóðarinnar um ókomna tíð“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. júl 2025 17:00 • Uppfært 21. júl 2025 17:01
Jón Björn Hákonarson var stjórnarformaður Landsvirkjunar undanfarið ár og sat í stjórn fyrirtækisins í tíu ár fram að aðalfundi þess um miðjan apríl. Hann segir eðlilegt að íbúar og sveitarstjórnarfólk á Austurlandi geri kröfu um að fyrirtækið sé virkur þátttakandi í samfélaginu.
„Kárahnjúkavirkjun kom sterk inn í okkar samfélag, sem átti á þeim tíma undir högg að sækja. Hér hefur ekki bara álverið byggst upp, heldur eru af því líka afleidd störf.
Landsvirkjun hefur farið í samstarfsverkefni í landshlutunum undir heitinu Eygló, sem ég held að hafi mikla möguleika til nýsköpunar. Við þurfum kannski að vera duglegri að nýta það hér fyrir austan. Slík verkefni eru meðal annars vettvangur Landsvirkjunar til að stuðla að áframhaldandi þróun á landsbyggðinni.
En ef ég tala sem sveitarstjórnarmaður þá er eðlilegt að gera kröfu á Landsvirkjun um að vera sem mest þátttakandi í okkar samfélagi og góður nágranni eins og hún er í dag,“ segir hann aðspurður um hvort rétt sé að gera kröfu á Landsvirkjun um að gera meira í austfirsku samfélagi, í ljósi þess að stór hluti framleiðslu hennar og tekna verða til á svæðinu.
Kaupverðið segir ekki alla söguna
Í febrúar keypti fyrirtækið land í Reykjavík fyrir 1,3 milljarða undir nýjar höfuðstöðvar. Hann segir að reiknað sé með að selja hluta landsins aftur þegar búið verði að ákveða hvernig fyrirtækið nýti það, en þörf sé á nýjum höfuðstöðvum eftir myglu sem kom upp í þeim eldri. Gamla húsið verður selt.
„Landsvirkjun er opin með að styðja við vinnu hjá fólki þar sem það vill búa en hjá því verður ekki komist að vera með ákveðinn hluta starfseminnar í Reykjavík, meðal annars út af erlendum viðskiptum. Ef ég fengi að ráða þá myndi ég dreifa fólki vítt og breitt um landið en það er nú svo að stór hluti þjóðarinnar býr orðið á svæðinu á milli Hvítánna.
Covid kennir okkur að við gætum gert margt víða. Þetta verður eflaust skoðað við hönnun höfuðstöðvanna en það er mikil eftirspurn eftir landi í Reykjavík og þess vegna var ákveðið að kaupa þetta. Síðan verður þetta þróað frekar geri ég ráð fyrir,“ svarar hann spurður um hvort þarna hafi ekki verið tækifæri til að dreifa starfseminni víðar.
Eðlilegt að utanlandsferð hefði verið gagnrýnd
Landsvirkjun hélt vorið 2024 árshátíð sína á Austurlandi. Hún var gagnrýnd vegna kostnaðar, sem meðal annars hlaust af því að fljúga starfsfólki austur. Jón Björn segir að honum hafi þótt sú gagnrýni að mörgu leyti furðuleg.
„Mér fannst sú umræða vera sérstök. Það er vinsælt á meðal einkafyrirtækja að fara erlendis en hér tók fyrirtæki í samfélagslegri eigu með dreifða starfsemi um land allt ákvörðun um að fara með árshátíð sína á Austurland. Starfsmannafélagið hefur á hverju ári haldið árshátíð í Reykjavík, þangað hefur fólk flogið og keyrt og þótt eðlilegt.
Þarna vildi Landsvirkjun gefa fólkinu sínu fyrir austan tækifæri á að taka á móti sínu samstarfsfólki og sýna svæðið þar sem fyrirtækið er með umfangsmikla starfsemi. Þá kom gagnrýnin. Ég hefði skilið hana hefðum við flogið fólki erlendis, verandi fyrirtæki í opinberri eigu. Ég tel það vera kost að fyrirtæki nýti það að fara með fólkið sitt út á land í árshátíðarferðir.
Mér fannst þetta líka vera hefðbundin árshátíð sem haldið var uppi af fólki á svæðinu. Ég greindi ekki sérstakt óhóf í tengslum við hana og vona að allir hafi farið heim með góðar minningar frá Austurlandi.“
Skoða vindorku á Fljótsdalsheiði
Jón Björn lýsir þeirri skoðun að framleiða þurfi meiri orku hérlendis til að svara ákalli atvinnulífsins og þróa þannig Ísland áfram. Fyrirtækið er núna að byggja sitt fyrsta vindorkuver og hefur hafið rannsóknir á Fljótsdalsheiði eftir hentugum svæðum.
„Þau svæði sem Landsvirkjun hefur horft á eru nú þegar með spennivirki og raskað land eftir aðrar virkjanaframkvæmdir. Með því nýtast virkjunarsvæðin betur og því er verið að horfa á svæði í kringum Kárahnjúka. Önnur svæði eru ekki til skoðunar á Austurlandi af hálfu Landsvirkjunar.“
Eðlilegt að nærsamfélagið njóti meiri ávinnings af orkuframleiðslu
Reglulega kemur til tals um hvort rétt sé að einkavæða Landsvirkjun, að hluta eða heild. Jón Björn er ósammála því. „Mín persónulega skoðun er að Landsvirkjun eigi að vera í eigu þjóðarinnar um ókomna tíð. Hún er einn af okkar mikilvægustu grunninnviðum.“Á sama tíma og fyrirtækið skilar arði er umræða um bæði hvernig hann verður til og er útdeilt. Bent hefur verið á að nærsamfélög fái takmarkaðan arð af orkumannvirkjum sem séu mörg hver undanþegin fasteignasköttum. Þær reglur eru nú til endurskoðunar.
„Landsvirkjun hefur kallað eftir því að löggjafinn skýri þessi mál. Ég skil sveitarfélög sem liggja hlið við hlið, í öðru skilar umfangsmikið mannvirki engu á meðan hitt er með framleiðsluna og fær tekjurnar. Það er eðlilegt að nærsamfélagið njóti þess fjárhagslega sem framleitt er á svæði þess.“
Hagnaður fyrirtækjanna sé notaður til að jafna orkukostnað
Ekki síst að undanförnu hefur verið deilt á að notendur raforku í dreifbýli þurfi að greiða flutningsgjald, þótt orkan sé framleidd svo að segja í bakgarðinum hjá þeim, meðan notendur á höfuðborgarsvæðinu sleppa við gjaldið þrátt fyrir að orkan sé flutt til þeirra um langan veg.
„Það er mikilvægt að muna þegar stjórnmálamenn velta fyrir sér raforkuverði, að regluverkið er í þeirra höndum. Ríkið hefur heimildir til að greiða niður orku. Stærstur hluti þjóðarinnar býr við hitaveitu en á nokkrum stöðum, þar á meðal Austfjörðum, eru köld svæði sem treysta á rafmagn til húshitunar.
Ég hef sagt að við ættum fyrir löngu að vera búin að búa til kerfi þar sem verðið væri sambærilegt um allt land með niðurgreiðslum. Ég held að við þurfum ekki að bæta í kerfið því á móti niðurgreiðslunni koma arðgreiðslur fyrirtækjanna. Síðan er rétt að hafa í huga að verð raforku er ekki bara framleiðslan, heldur líka dreifikostnaður sem hefur hækkað á síðustu árum.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.