Skip to main content

Landsmót harmonikkuunnenda gekk eins og best varð á kosið

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. júl 2025 11:44Uppfært 07. júl 2025 11:48

Það er til marks um frábæra skipulagningu Félags harmonikkuunnenda á Norðfirði að fjögurra daga landsmót Sambands íslenskra harmonikkufélaga sem fram fór á Reyðarfirði gekk aldeilis snurðulaust fyrir sig að sögn skipuleggjanda.

Tímasetning mótsins hefði vart getað verið betri því á svona mótum sem öðrum getur veðurfarið skipt nokkrum sköpum um aðsókn og stemmningu almennt. Veðurguðirnir reyndust hliðhollir með afbrigðum og undantekningarlítið sól og blíða alla daga mótsins.

„Við erum svo sem ekki með nákvæmar tölur um fjöldann en það var sannarlega vel sótt og allir sem að komu voru ánægðir með hvernig til tókst, segir Marta Guðlaug Svavarsdóttir, ein þeirra sem stóð í stafni við skipulagninguna.  „Veðrið hjálpaði auðvitað verulega til og þá kannski sérstaklega á fimmtudagskvöldið á tjaldsvæðinu. En við erum öll mjög ánægð með þátttökuna í heildina og sérstaklega var gaman hvað vel tókst til þarna í upphafi. Það hefur almennt ekki verið hluti af landsmótsprógramminu að leyfa heimafólki að taka þátt í skemmtuninni á tjaldsvæðinu en það gekk aldeilis vel og hugsanlega komu fleiri heimamenn og gestir á tónleikana eftir að hafa upplifað hve skemmtilegt var á tjaldsvæðinu í upphafi.“

Troðinn salur aðalkvöldið á laugardaginn var. Gestir hrósuðu skipulagningu mótsins mjög og bókstaflega allt gekk upp. Mynd Aðsend