Skip to main content

Kynntu Vopnfirðingum kolmunnann sem matfisk

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. mar 2025 09:43Uppfært 06. mar 2025 09:44

Kolmunni hefur hingað til ekki verið í miklum metum hjá íslensku þjóðinni sem góður eða spennandi matfiskur. Rúmlega 60 manns á Vopnafirði gæti þó hafa snúist hugur í þeim efnum eftir gærdaginn.

Tveir þýskir nemar í hönnun hjá Listaháskóla Íslands, þeir Janek Beau og Max Greiner, hafa síðustu vikurnar unnið að því í samstarfi við útgerðarfyrirtækið Brim að leika sér með þennan sérstaka fisk í því skyni að freista fólks að prófa og hugsanlega fara að borða í kjölfarið. Langstærsti hluti kolmunna sem veiddur er undan ströndum Íslands fer beint í fóður fyrir laxfiska þó reyndar kolmunninn sé af og til á borðum þjóða í Austur-Evrópu.

Eftir ýmsar tilraunir og prófanir komu félagarnir upp með réttinn „Kolmunis Vopnafiskur“ sem er kolmunni sérstaklega kryddaður, hjúpaður brauðmylsnu og djúpsteiktur og í gær buðu þeir öllum sem áhuga höfðu að prófa réttinn að koma og grípa bita hjá sér.

„Okkur fundist miður hvað þessi ágæti fiskur er lítið borðaður því ef hann er græjaður og eldaður rétt er hann í raun ekki síðri en margir aðrir vinsælir matfiskar,“ útskýrir Max. „Hingað til okkar í gær komu kringum 60 manns að prófa og ég man ekki eftir neinum sem ekki kom bragðið skemmtilega á óvart. Þetta snýst allt um að undirbúa fiskinn og prófa sig áfram eins og í öllu öðru.“

Umsagnir fólks sem prófaði „Komunis Vopnafiskinn“ á samfélagsmiðlum taka af allan vafa því allar eru þær afar jákvæðar. Þeir félagar eru hvergi nærri hættir því þeir ætla að elda og framreiða annan skammt milli klukkan 13 og 17 í dag í því sem áður var sláturhús Vopnfirðinga. Þeir bjóða alla velkomna að reka inn nefið og leggja sér bita til munns.

„Hver veit nema einhverjum finnist þetta nógu gott til að prófa að elda heimavið í kjölfarið,“ segir Max. „Þá er kominn grunnur að því að nýta þennan ágæta fisk í annað en fóður og slíkt.“

Félagarnir tveir með sinn hvorn bitann af „Kolmunis Vopnfiski“ eftir að hafa gefið bæjarbúum smakk í gærdag. Leikinn á að endurtaka í dag. Mynd Aðsend