Kynna íbúum drög að framtíðarsviðsmyndum menningarlífs á Seyðisfirði
Snemma síðasta haust fóru fram vettvangsrannsóknir og viðtöl vegna sérstaks verkefnis um framtíð menningarlífs á Seyðisfirði og nú hafa verið teiknaðar upp nokkrar framtíðarsviðsmyndir sem kynna skal íbúum og áhugasömum á fundi í Herðubreið síðar í dag.
Heiti verkefnisins er Hvert skal haldið? Og er leitt af hönnuðunum Hlín Helgu Guðmundsdóttur og R. Michael Hendrix sem bæði hafa mikla reynslu af skapandi stefnumótun fyrir stofnanir og fyrirtæki. Markmiðið er að leggja grunn að verðmætri innsýn í frekari stefnumótum fyrir svæðið til framtíðar.
Sjálf segir Hlín Helga að hún hafi lengi haft einhvern óútskýranlegan áhuga á Seyðisfirði en þar sé óvenju öflugur grunnur hvað viðkemur menningu og listum af ýmsu tagi.
„Kannski er það í genunum en afi minn var að austan, en mér fannst líka spennandi að skoða stöðu menningarlífsins í dag í ljósi þeirra umbreytinga sem samfélagið hefur gengið í gegnum á síðustu árum. Seyðisfjörður er með öflugan grunn þegar kemur að menningu og listum en það mikilvægt að hlusta á íbúana sjálfa um hvert þeir vilja stefna. Hvernig getur menning verið burðarás samfélagsins áfram? Og hvernig getur hún tengst öðrum þáttum á borð við nýsköpun, menntun, ferðaþjónustu, sjálfbærni á skapandi og hagnýtan hátt?“
Hugmyndin með kynningu og umræðum í dag milli klukkan 15 og 18 er að sýna íbúum hvert verkið er komið og hvaða drög séu komin á blað. Þær niðurstöður munu svo þróaðar áfram og meðal annars taka mið af þeim umræðum sem fram fara í dag. Heildarniðurstöður verkefnsins svo kynntar formlega síðar á árinu.