Orkumálinn 2024

Kyndistöð á Hallormsstað

Um allnokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi tilraunaverkefnis í húshitun á Hallormsstað. Áætlað er að setja upp tæknivædda kurlkyndistöð sem sér grunnskólanum, íþróttahúsinu, sundlauginni, Hússtjórnarskólanum, hóteleiningu og nokkrum íbúðarhúsum á staðnum fyrir kyndingu, en undirbúningur er nú á lokastigi.

kyndist.jpg

„Þetta er tilraunaverkefni, það fyrsta sinnar tegundar á landinu, sem gengur út á að nýta íslenskan við til upphitunar,” segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður Skógræktar ríkisins á Hallormsstað, í fréttabréfi Skógræktarinnar.

„Verkefnið varð til við þátttöku Skógræktar ríkisins og Héraðs- og Austurlandsskóga í Norðurslóðaáætlunarverkefni Evrópusambandsins. Íslendingar einbeittu sér, ásamt Finnum og Skotum, að nýtingu viðar til orkuframleiðslu.”

Alþingi samþykkti, í fjárlögum ársins 2009, að leggja fjögurra miljón króna fjárveitingu í verkefnið. Hlutafélagið Skógarorka ehf hefur verið stofnað um rekstur kyndistöðvarinnar og verið er að semja um verð á kurlkyndara frá Þýskalandi. Hráefnið mun koma úr Hallormsstaðaskógi og nálægum bændaskógum. Gert er ráð fyrir að kyndistöðin þurfi árlega um 600 rúmetra af timbri, þ.e. 1400 rúmmetra af viðarkurli.

„Stærstur hluti húsa á Íslandi er kyntur upp með heitu vatni,” segir Þór. „Á svokölluðum köldum svæðum verður að grípa til annarra úrræða. Þessi lausn, að nýta timbur til framleiðslu á heitu vatni, er því kostur þar sem skógur er nærri. Þetta er því ein möguleg leið til að nýta grisjunarvið úr íslenskum skógum.”

Gert er ráð fyrir að kyndistöðin verði virkjuð í haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.