Kreppulausir Álfheimar

Ferðaþjónustan Álfheimar hefur ákveðið að ráðast í frekari uppbyggingu ferðaþjónustu á Borgarfirði eystra og segir kreppu stríð á hendur.

borgarfjrur8_vefur.jpg

Jákvæð upplifun ferðamanna og heimamanna samtvinnast í grænni ferðamennsku

Arngrímur Viðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Álfheima, segist trúa að Borgarfjörður eystri sé fyrir ferðamenn framtíðarinnar, enda í boði rómuð náttúrufegurð og góðir möguleikar til afþreyingar og þá sérstaklega fuglaskoðunar og gönguferða um hinar rómuðu Víknaslóðir, Loðmundarfjörð og Stórurð.

,,Markaðssetning á ferðum okkar síðastliðið ár þar sem gist er í herbergjum með baði hefur leitt það í ljós, m.a. með góðum árangri hjá erlendum söluaðilum, að þörf er fyrir nýsköpun og nýja áfangastaði í íslenskri ferðaþjónustu sem þjónar nýjum markhóp með áhuga á Íslandi og náttúru þess.”

 

Dvelji lengur

  

Arngrímur segir áherslu lagða á þjónusturíkar ferðir þar sem ferðamenn dvelja lengur en eina nótt og í skipulögðum ferðum upp í sex nætur.  Það þýði að söluþörfin sé aðeins um 500 ferðamenn á ári sem gisti í 5-6 nætur, eða um 0,1 % ferðamanna er koma til Íslands í dag. ,,Því marki hyggjumst við ná árið 2010 og verðum þá vonandi búin að byggja eitt hús í viðbót þannig að við önnum þeim fjölda. Varan er sérstök; gönguferðir með áherslu á góða þjónustu og gildi ,,Eco”-túrisma sem byggir meðal annars á jákvæðri upplifun ferðamanna og jákvæðum áhrifum komu þeirra á samfélag, umhverfi og efnahag svæðisins sem heimsótt er. Meðal annars er áhersla á aðkomu heimamanna að leiðsögn, mat úr héraði og að kynnast hvað lítið samfélag er að fást við til sjávar og sveita.”lfheimahs_vefur.jpg

           

Meira byggt

  

Álfheimar hófust árið 2008 handa við byggingu bjálkahúss með tíu herbergjum með baði og nú á að bæta um betur og byggja 320 fermetra hús sem inniheldur 8 herbergi með baði, veitingaeldhús og veitingasal fyrir um 60 gesti.  Í húsinu verða tvö herbergi fyrir fatlaða einstaklinga með góðu aðgengi. Samið var við H-gæði ehf. með aðsetur í Fellabæ um byggingu að fokheldi en G. Ármannsson hefur tekið að sér uppsteypu burðarvirkis fyrir húsið. Jóhann Sigurðarson sér um jarðvinnu, en samningar um frágang innanhúss og lagnir eru á lokastigi.

Arngrímur áætlar að um fjögur ársverk verði unnin við framkvæmdir vorsins og við Ferðaþjónustuna Álfheima muni starfa um tíu einstaklingar sumarið 2009, í sveitarfélagi sem telur um 150 íbúa.

   Mynd: Ytri tindur Dyrfjalla gnæfir upp undir skýjaþykkni. Haft er fyrir satt að Borgfirðingar og Héraðsmenn deili gjarnan um hvorir búi bakdyramegin og hvorir framan við Dyrfjöllin eins og sagt er, en það mun hafa úrslitaþýðingu hvað varðar gáfnafar og almennt atgervi manna, að kunnugra./SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.