Konur sýna brjóstauppbyggingu eftir aðgerðir á ráðstefnu Brakkasamtakanna
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. sep 2025 11:07 • Uppfært 04. sep 2025 11:10
Einleikur sem byggir á reynslu eftir krabbameinsmeðferð og viðburður þar sem konur sýna og segja frá brjóstauppbyggingu eftir aðgerðir eru meðal dagskrárliða á ráðstefnu Brakkasamtakanna um helgina. Fáskrúðsfirðingar eru áberandi á ráðstefnunni enda hefur genið, sem veldur aukinni hættu á ákveðnum tegundum krabbameins, lengi verið sterkt í ættum þar.
„Það eru stórar ættir á bæði Fáskrúðsfirði og Djúpavogi með landnemagenið, stærsta brakkagen landsins. Ég er sjálf með aðra stökkbreytingu af BRCA2 sem kemur af Suðurlandi en bæði mamma og systir hennar giftust mönnum með brakka,“ segir Jóhanna Lilja Eiríksdóttir, formaður Brakkasamtakanna.
Jóhanna Lilja er uppalinn Fáskrúðsfirðingur sem býr nú í Vestmannaeyjum og verður með inngangserindi á ráðstefnunni. Með henni í stjórn er Hrefna Eyþórsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Austfjarða. Þriðji Fáskrúðsfirðingurinn er Hákon Björn Högnason, erfðaráðgjafi Landspítalans sem verður með erindi um áthættueftirlit spítalans.
Áhrifamikil dönsk sýning
Jóhanna Lilja og Hrefna hafa lagt mikla vinnu í undirbúning ráðstefnunnar og leitað fanga víða sem skilar sér í þremur öðruvísi viðburðum sem verða í Þjóðleikhúsinu annað kvöld. Fyrstur er einleikurinn „Why me?“ með dönsku leikkonunni Christinu Selden.
„Leikritið byggir á hennar leið í gegnum krabbameinsmeðferð og hvernig fólkið í kringum hana hegðar sér. Þetta er afar áhrifamikil sýning sem við Hrefna sáum brot úr þegar við vorum á ráðstefnu í Danmörku,“ segir Jóhanna.
Mun persónulegra en glærukynning
Eftir sýninguna verða tveir viðburðir, eingöngu opnir konum. Á öðrum þeirra verður þrívíddarhúðflúr af geirvörtu flúrað á konu en á hinum munu nokkrar konur sýna og segja frá útkomunni af brjóstauppbyggingu eftir brjóstnám.
„Þetta verða 7-8 konur sem sýna árangurinn, hvort sem er eftir áhættuminnkandi aðgerð eða vegna meins. Slíkur viðburður hefur aldrei verið á Íslandi áður en við Hrefna vorum viðstaddar einn á ráðstefnu í Bandaríkjunum og fannst það mikil uppljómun. Þetta er töluvert persónulegra en glærukynning.“
Fósturvísaskimanir að hefjast
Ráðstefnan sjálf verður haldin á laugardag í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar. Alma Möller, heilbrigðisráðherra flytur opnunarerindið. Af öðrum erindum má nefna umfjöllun um fósturvísagreiningu, sem er að hefjast á Íslandi. Það flytur Þórir Harðarson, uppalinn Reyðfirðingur. Ráðstefnan er ætluð fólki með brakkagen, heilbrigðisstarfsfólki og öðrum sem hafa áhuga á málefninu.
„Það eru 50% líkur á að brakkagen erfist. Í mínu tilfellu berum við systkinin það öll en af mínum þremur börnum er eitt þeirra með það. Með slíkri greiningu verður hægt að velja fósturvísa sem ekki bera það áfram,“ segir Jóhanna.
Ferðakostnaður í áhættuminnkandi aðgerðum samþykktur
Brakka, eða BRCA, er gen sem veldur aukinni áhættu á krabbameini. Hjá konum eykur það áhættu á meini í húð, brjóstum eða eggjastokkum en hjá körlum í húð eða blöðruhálskirtli. Brakkasamtökin eru hagsmunasamtök þeirra sem bera meinvaldandi brakkabreytingar en þau eru tíu ára í ár.
„Við fengum það í gegn í vetur að brakkaarfberar borga sama verð fyrir skimun og aðrar konur. Ferðakostnaður í áhættuminnkandi aðgerðum var líka samþykktur. En við eigum ýmislegt eftir. Eftirlitið er dýrt og utanumhald það þyrfti að bæta. Það er engin miðstöð sem fylgir því eftir heldur er einstaklingurinn eiginlega ábyrgur fyrir því sjálfur.“