Kjarval kenndi Íslendingum að njóta náttúrunnar upp á nýtt
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. jún 2025 17:27 • Uppfært 16. jún 2025 17:30
Ný sýning á verkum eftir Jóhannes S. Kjarval verður opnuð í Skaftfelli á Seyðisfirði á morgun. Verkin eiga það sameiginlegt að vera af austfirskri náttúru en Skaftfell og Listasafn Íslands standa saman að sýningunni.
„Það er heiður fyrir okkur að fá verkin og að Listasafn Íslands teygi sig út fyrir höfuðborgarsvæðið. Hvort tveggja lyftir Skaftfelli upp í nýjar hæðir,“ segir Anna Margrét Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Skaftfelli.
Verkin á sýningunni eru sextán og fjölbreytt að gerð: olíumálverk, vatnslitaverk og grafík – en þau sýna öll austfirskt landslag, einkum frá Borgarfirði eystra þar sem Kjarval ólst upp og dvaldi síðar langdvölum.
Kjarvalsverkin koma heim
Meðal viðfangsefna eru þekkt kennileiti á borð við Dyrfjöll og Strandartind, en einnig má finna í verkunum vísanir í þjóðtrú og hulduheima sem veittu Kjarval innblástur. „Það er gaman að geta deilt því með fólki sem hann málaði hér. Að verk Kjarvals séu aðgengileg fólkinu sem býr í nágrenni við myndefnið. Það má segja að þessi verk séu komin aftur heim,“ segir Anna Margrét.
Kjarval er talinn meðal helstu frumkvöðla íslenskrar nútímamyndlistar. Anna Margrét segir að hann hafi haft áhrif á hvernig Íslendingar skynjuðu umhverfi sitt. „Ég held að hann hafi séð náttúruna á sérstakan hátt sem varð til þess að Íslendingar lærðu að njóta hennar upp á nýtt.
Þegar ég ferðast um Austurland líður mér eins og ég sé að horfa á verk eftir Kjarval fremur en íslenska náttúru. Þá skilur maður hvað hann var að reyna að segja okkur,“ segir Anna Margrét.
17. júní í Múlaþingi
Sýningin stendur til 4. október. Í haust verður Skaftfell með listfræðsluverkefni fyrir alla grunnskóla á Austurlandi. Sýningin er framhald af sýningum og verkefnum sem Sláturhúsið á Egilsstöðum og Minjasafn Austurlands hafa staðið fyrir undanfarna mánuði, en sýning um ævi Kjarvals stendur í Sláturhúsinu út sumarið.
Sýningin verður opnuð klukkan 16:00, í lok hátíðarhalda 17. júní á Seyðisfirði. Í Múlaþingi verður einnig dagskrá á Egilsstöðum, Djúpavogi og Borgarfirði en skrúðgöngur verða gengnar á öllum stöðunum. Nánari upplýsingar um dagskrána eru á vef Múlaþings.