Skip to main content

Kínverskur áhrifavaldur á hjóli í ævintýrum um hávetur á Íslandi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. maí 2025 16:50Uppfært 20. maí 2025 16:51

Fáskrúðsfirði 24. janúar. Það hafði snjóað og nýbúið að moka þegar ég tók eftir sólgulum jakka á tjaldstæðinu. Það var sérstakt og svo var reiðhjól rétt hjá. „Ferðamaður með reiðhjól? Um hávetur!“ Ég var undrandi og forvitin, svo ég fór nær.


Þegar ég spurði sagðist hann vera frá Kína. Hann sat á stóru svörtu töskunni, sem lá á litlu snjólausu svæði við þvottagáminn. Hann fiktaði í eldunaráhöldunum sínum og var að útbúa sér hádegisverð. Ég ákvað að bjóða honum heim þegar hann hafði sagt mér frá blauta tjaldinu sínu.

Maðurinn sem ferðast um heiminn á hjóli


Zhu Zhi Wen er merkilegur maður, fæddur árið 1986 í Shanghai. Þegar hann var 26 ára pakkaði hann niður nokkrum hlutum til að skoða heimaland sitt á hjóli. Það átti bara að vera í nokkrar vikur – en síðan eru liðin tólf ár. Á eftir Kína fylgdu 64 lönd í fimm heimsálfum. Hann kom loks til Íslands í desember 2024. Hann taldi sig vera nógu sterkan til að takast á við íslensku náttúruöflin, eftir að hafa hjólað um Kanada og Alaska.

Zhu Zhi hefur lífsviðurværi sitt af því að vera áhrifavaldur en yfir milljón manns fylgja honum á samfélagsmiðlum. Hann er með öflugan búnað, tjald sem hentar í Himalajafjöllin og meira að segja litla kaffivél og tekönnu en hjólið og fötin hefðu mátt vera betri fyrir Íslandsferðina.

Til Íslands


Hann lenti í ýmsu á Íslandsferðinni. Hann tjaldaði fyrsta morguninn á Ásbrú. Þegar hann vaknaði morguninn eftir og leit inn í fortjaldið var allt frosið undir tommu af snjó: vistir, áhöld, föt.

Hann var líka hissa að koma næst til bæjar sem virtist vera í eyði, þótt ljósin væru öll kveikt. Hann vissi ekki að Grindavík hefði verið rýmd vegna eldgosa. Í Þorlákshöfn bauð rekstraraðili tjaldsvæðisins honum inn í jólamat.

Hann hjólaði austur á firði. Hann heillaðist af norðurljósunum og svörtum söndum en bölvaði vindinum sem eitt sinn feykti honum út af veginum. Einn frostkaldan morgunn, einhvers staðar milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur, uppgötvaði hann að mús hafði nagað allan matinn hans. Hann hafði ætlað að bíða af sér stormviðvörun en reyndi að hjóla af stað til Breiðdalsvíkur. Hann komst ekki áður en lokaði þar og varð því að gera sér smá hrísgrjón og te að góðu þann daginn.

Segir frá því erfiða


Á leið sinni norður yfir fjöll lenti hann í öðru óveðri. Þaðan urðum við að bjarga honum. Hann hafði ekki hlustað á viðvörunarorð okkar og hjólað af stað. Eftir það fórum við yfir málin með honum, hvernig ætti að þola íslenskar aðstæður.

Zhu Zhi deilir öllu af sínum ferðalögum með fylgjendum sínum á YouTube undir Zhuadventure. Hann deilir ekki bara góðu stundunum heldur er opinskár með hversu erfitt er að hjóla, hversu svangur hann er, hve þreyttur hann er og hvaða áhrif kuldinn hefur.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.