Kaupfélagsstjórinn hafði trú á ungum bræðrum með stórar hugmyndir
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. júl 2025 12:50 • Uppfært 11. júl 2025 12:55
Jón Steinar Elísson er að hætta búskap á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu eftir hálfrar aldar búskap sem hófst með draumum um stórt mjólkurbú. Sonur hans tekur við rekstrinum en Jón sjálfur, sem verður sjötugur á næsta ári, sækir nú í þéttbýlið með óvænt áhugamál í farteskinu.
Jón Steinar og bróðir hans voru varla búnir í skóla þegar þeir ákváðu að taka við búinu af föður þeirra. Ástæðan var tvíþætt: áhugi á greininni en ekki síður að aðstoða föður þeirra sem var einn og „kunni varla að sjóða kartöflur," að sögn Jóns.
Faðirinn var þó efins. „Honum leist bara alls ekki vel á það frá upphafi og hafði uppi miklar fortölur vegna þess. Það var líkast til vegna þess að hann vissi mæta vel hvað búskapur var erfiður og ekki ýkja mikið upp úr krafsinu að hafa,“ útskýrir Jón Steinar.
Kaupfélagsstjórinn gaf grænt ljós
Bræðurnir höfðu stórar hugmyndir um framþróun búskaparins en þurftu fjármagn til að láta þær rætast. Þeir leituðu því til Kaupfélags Héraðsbúa um lán og hittu þáverandi kaupfélagsstjóra, Þorstein Sveinsson.
„Úr varð, þó tregur væri til, að ég fékk pabba til að koma með mér til Þorsteins til að fá hann til að lána okkur,“ segir Jón Steinar. „Pabbi hafði orðið og byrjaði á að spyrja hvort ekki væri alveg glórulaust að strákarnir vildu fara að búa. Þorsteinn vildi vita hvað við ætluðum að gera og ég stundi upp að hugmyndin væri að vera með 50 til 60 kýr, sem á þeim tíma hefði þá verið langstærsta kúabú á Austurlandi.
En Þorsteinn horfði á okkur um stund og sagði svo að þetta væri akkúrat það sem vantaði því nýbúið hafði verið að stækka mjólkurstöðina og brýn þörf væri á meiri afurðum. „Hefjist bara handa strax!“ sagði hann svo.
Ég varð auðvitað himinlifandi og labbaði út en pabba leist nú ekkert á þetta og hann sat áfram með Þorsteini drykklanga stund eftir að ég fór. Ég ímynda mér að það hafi verið til að malda í móinn, en allt kom fyrir ekki.“
Vinnukonan varð eiginkona
Óvenjulegt upphaf átti ástin í lífi Jóns Steinars. Þar var það stúlkan sem gerði fyrsta skrefið. „Konan mín er Margrét Árnadóttir og það var hún sem á sínum tíma gekk á eftir mér," segir Jón Steinar hlæjandi. „Við bræður vildum aðeins fá stráka okkur til aðstoðar í bústörfin en ekki konur. Bæði var það þannig að við nenntum ekki að elda eitthvað fínerí ofan í þær og líka að það þurfti að taka til hendinni hér víða."
„En þessi stelpa úr Húsey hafði áhuga og ég sagði henni hreint út í upphafi að ég setti bara eitt skilyrði: hún yrði að vera fjósakerling og flytja yfir til mín. Hún hugsaði sig um í vikutíma áður en hún lét reyna á þetta og við erum saman enn í dag."
Sár sonarmissir
Jón og Margrét urðu fyrir miklu áfalli þegar sonur þeirra lést í vinnuslysi á Grænlandi árið 2010. Jón var afar ósáttur við öryggi starfsfólks hjá Ístaki. Þar sem Grænland stóð utan Evrópusambandsins og EES voru öryggiskröfur ekki jafn strangar þar.
„Það kom bara fljótt í ljós þegar farið var að rannsaka slysið að góður og viðunandi aðbúnaður starfsmanna þeirra var ekki ýkja hátt skrifað hjá stórfyrirtækinu,“ segir Jón. „Að komast að því að íslenskt fyrirtæki erlendis væri að standa sig miklu verr gagnvart starfsmönnum sínum var sárt og vakti hjá mér mikla reiði sem ég enn finn reglulega fyrir."
Framtíðarsýn fyrir Austurland
Jón Steinar, sem var lengi í hreppstjórn og oddviti um tíma, hefur ákveðnar skoðanir á framtíð Austurlands. „Að mínu viti hefur ekki ýkja margt breyst til batnaðar fyrir okkur Austfirðinga síðustu áratugina. Sjálfur kenni ég þar um hve lítil samstaða er hjá íbúum en ég tel að sameining Austurlands alls í eitt sveitarfélagið yrði mjög af hinu góða. Þannig yrði til stórt og nokkuð sterkt afl til að gera okkur gildandi hjá þingmönnum og ráðherrum."
Thermomix og bakstur eftir búskapinn
Framtíðaráhugamál Jóns Steinars koma mörgum á óvart. „Ég skal nú ekki segja en ég hef áhuga á að prófa mig áfram með bakstur. Það helgast af því að mér var fyrir nokkru boðið í heimsókn á nágrannabæ hér og þar kynntist ég tæki sem kallast Thermomix," segir Jón. „Með þeirri græju er hægt að baka kökur og brauð og ýmislegt annað á hinn einfaldasta máta.“
Mér finnst þetta heillandi og er þegar farinn að prófa mig áfram og langar að gera það áfram. Ekki síst sökum þess að ekkert bakarí finnst lengur á Egilsstöðum, sem er mjög miður.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.