Skip to main content

Kanónur á bæjarhátíðinni Útsæðinu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. ágú 2025 16:26Uppfært 13. ágú 2025 08:21

Bæjarhátíð Eskfirðinga, Útsæðið, hefst síðdegis á morgun með pöbb-kviss keppni í félagsmiðstöðinni Valhöll en það er upphafið að næstum fimm daga hátíðardagskrá þetta árið. Meðal skemmtiatriða eru Tvíföfðabræðurnir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson.

Útsæðishátíðin er fyrst og fremst ætluð heimafólki til afþreyingar og skemmtunar en hin síðari ár hafa bæði brottfluttir Eskfirðingar sem og aðrir gestir sérstaklega sótt bæinn heim meðan hátíðin stendur yfir og notið vel ekkert síður en íbúarnir.

Hátíðin hefst í Valhöll annað kvöld með hvorki meira né minna en fjögurra klukkstunda pöbb-kvissi sem mun reyna á þá allra minnugustu sem til leiks mæta. Þrjá kvikmyndir verða í boði í Valhöll daginn eftir á fimmtudag en bíógræjur Valhallar eru nýjar af nálinni og með allra bestu gæðum sem í boði eru.

Froðudiskó og Tvíhöfði

Húlleríið á föstudag hefst í sundlauginni með froðudiskói áður en fólk setur undir sig betri fótinn til að vitna uppistand Tvíhöfðbræðra áður en drjúga og mikil dagskrá á laugar- og sunnudag tekur við. Hoppukastalar, kassabílarallí, kökukeppni, frítt að borða auk fjölda markaðstjalda á aðal hátíðarsvæðinu við Eskjutún plús góð tónlist listamanna þegar rökkva tekur í Valhöll á laugardag áður en blásið er í afmæliskaffi á sunnudag og að sjálfsögðu með kaffi og kökum.

„Fyrir utan þessar kanónur sem Tvíhöfðabræður eru þá er það sem bætist nú við þessa hefðbundnu skemmtidagskrá er sérstök kraftakeppni sem ekki hefur verið haldin áður,“ segir Kristinn Þór Jónasson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar. „Við höldum að sjálfsögðu í kaffiboðið á sunnudag, sem tókst vonum framar á síðasta ári, en þar bjóðum við bara öllum sem vilja í kaffi og meðlæti og sýnum því samhliða gamalt myndefni frá Eskifirði. Það vakti lukku í fyrra og við höldum því áfram. Svo endum við þetta allt saman með ratleik sem stendur í vikutíma frá hátíðarlokum. Þá fá áhugasamir app í símann um markmiðin og fólk getur tekið sér allt að viku til að finna hina og þessa munina á hinum og þessum stöðunum.“

Nákvæma dagskrá hátíðarinnar má finna hér.