Skip to main content

Kallar eftir samstöðu launafólks og atvinnurekenda gegn gervistéttarfélögum og undirboðum

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jún 2025 18:33Uppfært 27. jún 2025 18:37

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs og fyrsti varaforseti ASÍ, hyggst láta af störfum árið 2027 eftir áratugalanga baráttu fyrir réttindum launafólks á Austurlandi en hún var endurkjörinn formaður AFLs á aðalfundi í apríl. Frá því að hún kom fyrst inn í verkalýðshreyfinguna sem trúnaðarmaður í frystihúsi hefur hún leitt sameiningarferli stéttarfélaga á svæðinu og tekist á við áskoranir frá gervistéttarfélögum til tæknibreytinga.


Hjördís Þóra er uppalin á Fljótsbakka í Eiðaþinghá og gekk í skóla á Eiðum. Eftir misheppnaða dvöl í framhaldsskóla í Reykjavík fór hún á Höfn í Hornafirði á vertíð árið 1977 og hefur verið þar nánast samfellt síðan.

„Í starfinu eru alltaf ný verkefni og áskoranir, maður veit ekki alltaf hvað maður er að fara að gera þegar maður mætir í vinnuna. Samskiptin við félagsmennina eru skemmtileg og gefandi en síðan fer líka mikill tími í kjarasamninga,“ segir Hjördís um starfið sem formaður stéttarfélags.

Vegferðin í verkalýðshreyfingunni hófst með trúnaðarmannsstöðu í frystihúsi, síðan sem varaformaður Jökuls síðan formaður frá 1993. Hún varð síðan fyrsti formaður Vökuls stéttarfélags árið 1999 þegar félög frá Stöðvarfirði til Hafnar sameinuðust, og að lokum formaður AFLs við stofnun þess 2007, er öll verkalýðsfélög frá Bakkafirði til Hornafjarðar runnu saman.

Sameining félaga styrkti stöðu launafólks á Austurlandi


Félagssvæði AFLs nær nú frá Skeiðará að Melrakkasléttu. Hjördís segir að sameiningin í stórt félag hafi ótvírætt verið rétt skref. „Við höfum byggt upp öflugt félag, bæði félags- og réttindalega, sjóðir félagsins styðja vel við félagsfólk. Verkfallssjóðurinn okkar stendur líka ágætlega og er tilbúinn í næstu átök ef þarf. En það verður að muna að allir þessir sjóðir hafa náðst í gegn í kjarasamningum og það hefur þurft að berjast fyrir þeim, eins og öðrum réttindum.“

AFL heldur úti skrifstofum á sex stöðum: Egilsstöðum, Reyðarfirði, Neskaupstað, Djúpavogi, Vopnafirði og Höfn. Hjördís segir það meðvitaða ákvörðun til að halda þjónustunni sem næst félagsmönnum.

Kjarasamningar og launabaráttan – gagnrýni og réttlæti


Kjarasamningar eðlilega eru stór hluti af starfi Hjördísar Þóru, með tilheyrandi ferðalögum og fundum. Þessa dagana eru samningar AFLs við Alcoa Fjarðaál til umræðu hjá ríkissáttasemjara og nýbúið er að samþykkja svokallaða bræðslusamninga.

Hjördís Þóra sér ekkert athugavert við að kjarasamningar séu umdeildir. „Ég hef komið út af kynningu á kjarasamningi og haft áhyggjur því ég fékk engar skammir. Það er oft lagt mikið í kjarabaráttuna og ekki næst alltaf sá árangur sem stefnt var að. Þá verður fólk fyrir vonbrigðum og kjör þess eru undir þannig að það er ekki skrýtið að það hafi skoðanir.“

Í kjarasamningum hefur AFL þurft að vega og meta hvort samið sé um krónutölu- eða prósentuhækkanir. Hjördís bendir á að krónutöluhækkanir, sem hafa verið ríkjandi frá árinu 2000, skili sér illa til millitekjuhópsins þar sem launataflan kýlist saman. Kannanir meðal félagsmanna sýna að hópurinn skiptist í tvennt um hvor leiðin er betri.

Tilgangur Virðingar að brjóta niður réttindi launafólks


Síðan Þjóðarsáttin var gerð 1990 hefur vinnudeildum fækkað umtalsvert. AFL fór síðast í verkfall árið 2017, og Hjördís segir að yngri kynslóðir þekki vart verkföll af eigin raun, „heldur bara sem frí í skólum.“ Þrátt fyrir það segir hún að samstaða sé til staðar ef á þurfi að halda, eins og atkvæðagreiðsla í fyrra um verkfall hjá starfsfólki skóla á Hornafirði sýndi þar sem 85% samþykktu verkfallið.

Hjördís kallar eftir samstöðu gegn undirboðum á vinnumarkaði. Nýlega hefur Efling leitt baráttu verkalýðshreyfingarinnar gegn Virðingu stéttarfélagi, sem hreyfingin skilgreinir sem gervistéttarfélag þar sem því sé í raun haldið úti af Samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT.

„Við teljum Virðingu vera skúffufélag fyrirtækjanna. Tilgangur þess er í mínum huga að brjóta niður réttindi launafólks. Tilhneigingin til að brjóta niður áunnin réttindi, sem kostað hafa blóð, svita og tár kynslóðanna á undan okkur, er alltaf til staðar. Þetta er eitt af því,“ segir Hjördís.

Hún bætir við að aðeins tengist brot veitingafyrirtækja þessum aðilum, önnur fari flest eftir kjarasamningum en æ stærri hópur virðist ætla sér að brjóta niður verkefnin. Hún gagnrýnir önnur fyrirtæki fyrir að grípa ekki til aðgerða gegn þeim sem standi fyrir slíku. „Mér finnst vanta að alvöru vinnuveitendur standi í meira mæli með verkalýðshreyfingunni, því þetta skekkir þeirra samkeppnisstöðu.“

Í átökunum við SVEIT hefur meðal annars verið borið á verkalýðshreyfinguna að vera orðna úr takti við tímann. „Það má örugglega gagnrýna hreyfinguna fyrir margt, meðal annars að við séum ekki að fylgja eftir því sem sé að gerast. SVEIT hefur hins vegar viljað lækka laun utan dagvinnutíma, því þá er þunginn í þeirra rekstri. Við höfum ekki verið tilbúin að slá af réttindunum - kannski er það gamaldags. En það má halda því til haga að SVEIT varð heldur ekki ágengt innan Samtaka atvinnulífsins.“

Barátta gegn launaþjófnaði og brotum á réttindum


Hjördís segir launaþjófnað og brot á réttindum launafólks vera viðvarandi vandamál. AFL hefur oft þurft að sækja laun, jafnvel hundruð þúsunda, fyrir félagsmenn. Brotin skiptast í nokkra flokka, þar á meðal rangt reiknuð laun og vinnuveitendur sem ákveða einhliða að breyta starfshlutfalli.

„Starfsmaður er kannski ráðinn í 100% starf en svo ákveður vinnuveitandinn að starfsmaðurinn eigi bara að vera í 70% starfi næsta mánuðinn og finnst það réttlætanlegt. Þar með er starfsmaðurinn farinn að bera ábyrgð á rekstrinum en samkvæmt kjarasamningum og lögum þarf fyrirtækið að standa við samninginn."

Áskorun verkalýðshreyfingarinnar er að tryggja að starfsfólk þekki réttindi sín, sérstaklega ungt fólk og erlent starfsfólk. Hjördís segir eina stærstu breytinguna á vinnumarkaðnum vera fjölgun erlends starfsfólks sem kemur úr mismunandi samninga- og réttindaumhverfi og áttar sig ekki á íslenska kerfinu.

Tæknibreytingar og réttlát umskipti


Nýjar áskoranir bíða verkalýðshreyfingarinnar, þar á meðal breytt atvinnumynstur þar sem fólk ræður sig síður til langframa, svokallað „gigg-hagkerfi“. „Í þessum störfum hefur fólk enga tryggingu fyrir neinu, það fær bara næsta starf. Við þekkjum þá tíð þegar menn biðu í röð á höfninni eftir því hvort það væri einhverja vinnu að fá þann daginn. Við viljum ekki fara aftur þangað."

Tækniþróun og gervigreind er önnur stór áskorun. Á Austurlandi sést þetta helst í uppsjávarvinnslu þar sem mun færri hendur þarf til að vinna margfalt meiri afla. Hjördís kallar eftir „réttlátum umskiptum“ þar sem hagræðing af tæknibreytingum dreifist sanngjarnt.

„Hér á Austurlandi hefur orðið gríðarleg breyting í uppsjávarvinnslunni en við sem launafólk höfum takmarkað fengið út úr þessari hagræðingu. Þótt tæknivæðingin kosti þá verður meira eftir í rekstrinum ef starfsfólki fækkar stórkostlega. Við viljum líka fá sneið af þessu fyrir okkar fólk. Stóra spurningin er hvernig við getum stuðlað að réttlátum umskiptum. Ég hef ekki svar við henni en við erum alltaf á tánum gagnvart öllu því sem er að gerast í samfélaginu.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.