Kaldar kveðjur til íbúa?
Stjórn Hávarrs, félags ungra sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð, segir meirihluta bæjarráðs Fjarðabyggðar senda íbúum bæjarfélagsins kaldar kveðjur með að hafa hafnað tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks um lækkun launa æðstu embættismanna bæjarins.

Á bæjarráðs fundinum í vikunni var tillagan felld en samþykkt önnur tillaga frá meirihlutanum um að sparað verði hjá sveitarfélaginu eins og kostur er, jafnt í yfirstjórn og annars staðar, þar sem því verði við komið án þess að skerða þjónustu við íbúanna. Tillaga Sjálfstæðismanna verði höfð til hliðsjónar við gerð fjárhagsáætlunar. Starfsmenn sem vilji sé frjálst að lækka laun sín eða fella þau niður tímabundið áður en ákvörðun er tekin um annað.
Í ályktun stjórnar Hávarrs er harmað að meirihluti bæjarráðsins hafi ekki haft bein í nefinu til að samþykkja tillöguna. Hún hafi verið lögð fram með það að markmiði að yfirvöld í Fjarðabyggð væru tilbúin til að taka til í eigin ranni fyrst á erfiðum tímum. Ákvörðunin séu kaldar kveðjur til íbúa sveitarfélagsins.