Skip to main content

„Jónas Friðrik er besta textaskáld Íslandsögunnar“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. maí 2025 14:44Uppfært 13. maí 2025 14:47

Tveir Norðfirðingar eru mennirnir á bakvið tónleika með lögum við texta Jónasar Friðriks frá Raufarhöfn sem haldnir verða í Salnum í Kópavogi í næstu viku. Annar þeirra segir skáldið hafa haft sérstakt lag á að mála upp bjartar myndir af lífinu.


„Fyrir um þremur árum hafði vinkona mín sem býr á Raufarhöfn, þar sem hún sér um viðburðahald, samband, sagði mér frá því að þar ætti að halda tónleika til heiðurs Jónasi Friðriki og spurði mig hvort ég vildi syngja nokkur lög.

Jónas átti sjálfur að mæta og segja frá tilurð textanna á milli laga. Mig hafði dreymt að hitta hann síðan ég var barn. Ég ólst upp við texta hans og í mínum huga er hann besta textaskáld Íslandssögunnar.

Ég mætti norður og hitti Jónas Friðrik sem þarna var í erfiðri krabbameinsmeðferð. Hann lést svo 8-9 mánuðum síðar og ég tel mig heppinn hafa hitt hann.

Þegar ég leit yfir safnið hans hugsaði ég með mér að það yrði að gera tónleika með þessum textum. Því hefur aðeins seinkað en þegar Daníel Geir Moritz hafði samband við mig með hugmynd um samstarf þá lagði ég þetta til.“

Þetta segir söngvarinn Einar Ágúst Víðisson en hann og Daníel Geir eru báðir uppaldir Norðfirðingar. Daníel Geir stendur fyrir viðburðahaldi í Höllinni í Vestmannaeyjum, þar sem hann býr en Einar Ágúst er þekktastur fyrir feril sinn með hljómsveitinni Skítamóral þótt hann hafi víðar komið við.

Vakti áhugann á ljóðum


Einar Ágúst segist hafa alist upp við það á æskuheimili sínu að hlusta á Ríó tríó en Jónas Friðrik var hirðskáld hljómsveitarinnar. „Þegar ég var 16-17 ára gamall farinn að spila á austfirskum öldurhúsum þá söng ég þessi lög. Það geta allir hent saman stökum en það sem gerir hann einstakan er hvernig hann málar rósrauðan rómantískan bjarma af lífinu eins og okkur langar að sjá það.

Hann er líka snjall með íslenskuna. Textarnir hans urðu til þess að ég fékk áhuga á ljóðum sem barn. Í Nesskóla var mikil áhersla á að læra ljóð og þótt ég læsi ljóð eftir öll stórskáld þjóðarinnar var ég alltaf á því að hann væri öðrum fremri. Þetta varð mér síðan hvatning til þess að gera síðar texta sjálfur.

Ég var ungur þegar ég fór að fást við kvíða og þunglyndi, á þessum árum sem við erum að fást við brotin og raða þeim saman í okkur sem einstaklinga. Mér fannst ég verða heill í gegnum textana hans Jónasar, heimurinn var svo fallegur í gegnum orðin hans,“ segir Einar Ágúst.

Allt lög sem fólkið getur sungið með


Með Einari Ágústi á tónleikunum verður hljómsveitin Gosarnir úr Vestmannaeyjum. „Daníel Geir stakk upp á þeim. Þetta eru strákar sem hafa spilað undir í Höllinni þegar söngvarar koma ofan af landi. Þetta eru einstakir snillingar, einstakir trúmenn því þeir eru mikið í kirkjunni og svo líka Sjálfstæðismenn – hljómsveitarstjórinn Gísli Stefánsson settist á Alþingi í gær í fjarveru Guðrúnar Hafsteinsdóttur.“

Aðspurður um uppáhaldstexta svarar Einar Ágúst með löngum brotum úr „Einni nótt“ og „Ég skal syngja fyrir þig,“ sem Björgvin Halldórsson flutti en Jónas Friðrik gerði texta fyrir fleiri en Ríó tríóið. Hann nefnir líka Tár í tómið, sem lýst hefur sem fyrsta íslenska textanum um erfiðleika eiturlyfjafíknar. Allt eru þetta lög sem fylgt hafa þjóðinni lengi. „Það verður ekki eitt lag sem fólk getur ekki sungið með.“

Í aðdraganda tónleikanna þótti við hæfi að Einar Ágúst og Gosarnir færu í hljóðver og tækju upp eitt lag. Fyrir valinu varð „Dýrið gengur laust“ sem Ríó tríó flutti.

Spurningin er síðan hvenær tækifæri gefst til að halda tónleikana líka á Austurlandi. „Við erum að skoða það. Textar Jónasar Friðriks eru mikill menningararfur og við erum heppin hafa haft hann lifandi okkur í tíma.“