Skip to main content

Íslenskir steinar heilla í landslagshönnuninni

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jún 2025 15:30Uppfært 10. jún 2025 15:33

Christian Holten Frengler er rúmlega tvítugur Dani, nemi í landslagsarkitektúr, sem hefur verið Vopnafirði að kynna sér íslenska nálgun í landslagshönnun. Hann kom fyrst þangað sem starfsnemi í október í fyrra og líkaði það vel að hann valdi að snúa aftur.


Christian hefði getað valið úr áfangastöðum, en skólinn hans, Jordbrugets Uddannelses Center í Árósum, er á meðal þeirra virtustu á sínu sviði í Evrópu en þar læra meðal annars garðyrkjumenn og skógfræðingar.

Christian býr núna í veiðihúsi skammt utan við Vopnafjörð og ætlar sér að vera þar fram á haust. „Allt er öðruvísi hér," segir hann. „Öll húsin eru öðruvísi en í Danmörku. Hér eru timburhús; í Danmörku erum við með steinhús. Danmörk er flatt land, þar eru engar hæðir. Hér eru alls staðar hólar. Plöntur eiga erfitt með að vaxa hér vegna allrar malarinnar sem er undir. Í Danmörku er bara hrein mold, svo þær vaxa vel."

Vanari steyptum steinum


Christian sérhæfir sig í steinverki, sem hefur verið hans aðaláhersla síðan hann kom til Íslands. „Hér er notað mikið af náttúrulegum steinum, en í Danmörku notum við bara steypta steina. Ég hef verið í faginu í nokkur ár, svo ég er vanur að vinna með steypta steina, en mér finnst það frekar leiðinlegt. Ég vildi gera eitthvað öðruvísi. Ég er að læra að vinna með náttúrulega steina, að byggja grjóthleðslur með torfþökum á þeim. Ég lærði líka að meitla steina."

Christian sér ekki eftir því að hafa skipt út fjörugu háskólasamfélagi fyrir rólegan fjörð. Hann saknar ekki mikið félagslífsins, og fljótlega mun vinur hans úr háskólanum koma til hans. Hann kemur líka úr bæ sem er minni en Vopnafjörður svo hann er ýmsu vanur.

„Það vinnur dönsk stelpa á bensínstöðinni. Stundum heimsæki ég hana og kærastann hennar, og þau eiga líka nokkra vini. Ég þekki nokkra hér," segir hann.

Mynd: Marko Umicevic

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.