Íslandsferðin sú erfiðasta á hjólaferlinum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. ágú 2025 13:56 • Uppfært 27. ágú 2025 14:01
Tékkinn Ivan Burkert er nú á lokametrunum í ferð sinni um landið á gamaldags reiðhjóli, svokölluðum veltipétri. Hinum eiginlega hring var lokað þegar hann kom til Egilsstaða síðdegis í gær. Hann segist Íslendingum þakklátur fyrir mikinn stuðning í ferðinni sem hafi verið sú erfiðasta sem hann hafi ráðist í til þessa.
Ivan hefur haft það fyrir sið frá 2010 að fara um það bil annað hvert ár í langa ferð á reiðhjólinu. Sú fyrsta var til Cabo Fisterra, odda á vesturströnd Spánar en hann hefur líka hjólað til Nordkapp í Noregi og til Rómar um Tyrkland.
Ivan hjólar til styrktar krabbameinssjúkum börnum og skrifar bækur um ferðalögin. Hann selur þær í fjáröflunarskyni eða gefur til að kynna afrek sín.
Rúmlega 3.100 kílómetrar
Ferðirnar byrjar hann í heimabæ sínum, Hradec Králové og það á líka við um þá sem nú er að ljúka. Hann byrjaði að hjóla þar 26. júlí og fór í gegnum Pólland og Þýskaland upp til Hirtshals í Danmörku , þar sem hann fór um borð í Norrænu. Hann kom til Seyðisfjarðar 14. ágúst og hefur síðustu tvær vikurnar hjólað umhverfis Ísland.
Hjólatúrnum lýkur endanlega þegar hann kemur um borð í Norrænu á morgun, Ivan og aðstoðarmaður hans Jiří Hynek keyra heim frá Danmörku en stefna á að hjóla umhverfis Lagarfljót í dag. Að baki eru 3.157 kílómetrar.
Vinur heimsmethafa
Ivan ferðast um á reiðhjóli þar sem framhjólið er mannhæðarhátt, en það aftara er lítið, aðallega til stuðnings. Slík reiðhjól, sem samkvæmt Morgunblaðinu kallast veltipétur, voru vinsæl í Evrópu í lok 19. aldar en hurfu síðan af markaðinum.
Þau lifa þó enn sínu lífi í ákveðnum kreðsum. Sá sem kom Ivan upp á veltipéturinn er vinur hans, Josef Zimovčák, sem hefur unnið keppnir á slíkum hjólum og sett heimsmet, til dæmis að hjóla á því 552,25 kílómetra á einum sólarhring. Josef hefur einnig unnið sér til frægðar að hjóla sömu dagleiðir og keppendur í Tour de France og Giro d’Italia. Hann var alltaf deginum á undan hópnum.
Veðrið á Íslandi erfiður andstæðingur
Ivan hefur hjólað á þess konar hjólum frá árinu 2008 og er á sínu þriðja hjóli Hann útskýrir að þau geti verið nokkuð krefjandi. „Það er erfitt að fara upp en líka niður, það eru bara bremsa á framhjólinu. En íslensku vegirnir voru líka erfiðir, þeir eru svo grófir,“ útskýrir hann.
Þeir eiga sinn þátt í að gera Íslandsferðina að þeirri erfiðustu sem hann hefur hjólað. „Vindurinn, regnið, þokan og allt það. Fyrstu fjóra dagana vorum við í stöðugum vindi. Síðan fengum við aftur vind síðustu fjóra dagana. Þeir voru virkilega erfiðir. Að því leyti er ég feginn að þessu er lokið,“ segir hann.
Síðasti áfanginn var frá Streiti, syðst í Breiðdalsvík til Egilsstaða í strekkingsvindi og rigningu, 95 km leið. Í dagbókarfærslu skrifar Jiří að þetta hafi verið erfiðasti áfanginn, sérstaklega Fagridalurinn. Regnið og vindurinn hafi reynt á, síðan leiðin upp frá Reyðarfirði inn í svartaþoku.
Einstakur stuðningur í einstöku landi
En þrátt fyrir erfiðleikana þá verða minningarnar frá Íslandi ánægjulegar. „Fjöllin, hverirnir, fossarnir. Þetta er algjörlega einstakt land,“ segir Ivan.
Hvað mestu munar þó um stuðning Íslendinga sem hafa virkilega fylgst með Ivan eftir umfjöllun Morgunblaðsins. „Fólk er mjög áhugasamt um hjólið. Þegar það keyrir framhjá mér tekur það upp símann til að mynda. En ég vil koma á framfæri þökkum til Íslendinga. Þeir hafa sýnt mér einstakan stuðning.“
Ivan, sem vinnur sem smiður í heimalandinu, segist óviss um hvort hann haldi hjólaferðum sínum áfram eftir tvö ár. „Ég þarf að spyrja konuna mína leyfis!“