Skip to main content

Hreinn Björgvinsson: „Hér hefur allt orðið til í minni ævi”

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. maí 2025 17:18Uppfært 05. maí 2025 06:48

Hreinn Björgvinsson stundaði hákarlaveiðar í 60 ár á Vopnafirði. Þótt hann sé hættur að róa, fylgist hann enn með öllu sem gerist á bryggjunni úr eldhúsglugganum. Íslenskur sjávarútvegur hefur tekið stakkaskiptum á hans ævi og Hreinn hefur áhyggjur af fækkun smábátasjómanna.

Uppvöxtur og fyrstu skref á sjónum


Hreinn er fæddur á Vopnafirði árið 1943 og hefur búið þar alla sína tíð. Móðir hans lést þegar hann var aðeins fimm ára og ólst hann upp í Leiðarhöfn, býli rétt utan við þorpið. Faðir hans leigði annan hluta býlisins og bjó þar með móður sinni. Snemma fór Hreinn í vinnumennsku og var eftir fermingu á Hámundastöðum en síðan í tvö ár hjá fólkinu sem bjó á hinum hluta Leiðarhafnar.

„Leiðarhöfn var besti staður í heimi og þetta var yndislegt fólk. Ég var vinnumaður í heyskap og hirti um skepnurnar. Síðan var bátur á jörðinni. Það var róið til fiskjar og stundum á hákarl.”

Sautján ára fór Hreinn á sína fyrstu vertíð til Grindavíkur, sem var algengt fyrir Vopnfirðinga. „Héðan fóru 70 manns, staðurinn tæmdist af karlmönnum. Það voru helst þeir sem áttu dálítið af kindum sem voru heima. Þá var fjós við hvert hús, hvert heimili átti 1-2 kýr. Það kom í hlut kvenna og barna að hugsa um þær yfir veturinn.”

Upp úr sjö ára aldri var Hreinn farinn að fá að fara með í róðra út á Vopnafjörð. „Það voru mest litlir bátar hér því hafnleysan var algjör. Það var reynt að gera út stærri báta, 10-15 tonn. Þá var bara ein lítil bryggja, Kaupfélagsbryggjan, innst í þorpinu. Ef eitthvað var að veðri þá voru þeir á legufærum úti á sundinu, milli lands og hólmanna og áttu til að slitna upp og týna tölunni.”

Hákarlaveiðar og verkun: Listin að gera góðan hákarl


Hreinn byrjaði að taka þátt í hákarlaveiðum upp úr fermingu. Hann lýsir veiðunum þar sem yfirleitt sé hákarlinn veiddur á línu og önglarnir verði að vera á keðjum, annars bíti hákarlinn önglana af. Beitan var yfirleitt spik af sel eða hnísu.

„Maður fékk alltaf einhverja seli og hnísur í grásleppunetin, svo saltaði maður það og átti gjarnan nóg. Það var lengi talað um að hákarlaveiðarnar byggðust á að hafa góða beitu. Í gamla daga var mikið lagt upp úr að hafa hana úldna. Ég held það hafi verið vegna tíðarandans, salt kostaði peninga.”

Hreinn segist hafa veitt mest af hákarli eftir grásleppuvertíðina, í maí og júní. Þegar hann ólst upp var hákarl hluti af daglegri fæðu en hefur þróast í að vera mest seldur í kringum þorrann.

„Ég veiddi mikið af hákarli en ég eyðilagi líka mikið í verkunn. Það er eiginlega óútskýrt hvað það gengur misjafnlega að verka hákarl. Stundum gengur það ljómandi vel svo úr verður úrvalsvara en í annan tíma verkast hann hreint ekki, án þess að maður hafi nokkra skýringu á því.”

Bátakaup og tilraunir til þess að hætta sjómennsku


Fyrstu trilluna keypti Hreinn 17 ára gamall, í félagi við tvo aðra. Næsta bát keypti hann árið 1972 ásamt félaga sínum, Guðmundi Ragnarsson. Báturinn var 12 tonna, smíðaður fyrir þá og fékk nafnið Þerna. „Við stóðum yfirleitt meðan við gátum meðan við vorum að eignast hann en ég held við höfum aldrei fengið gulan miða, lent í vanskilum.”

Þeir félagarnir reyndu síðar að hætta til sjóðs. Það gekk ekki eftir enda enn á besta aldri. „Við héldum við værum orðnir fullorðnir. Ætli við höfum ekki verið mánuð í landi, þá keyptum okkur aftur saman bát. Við vildum vera sjálfsokkar eins og sagt er — sjálfráðir.” Hreinn réri síðast sumarið 2020 á strandveiðum. „Nú er ég kominn í úreldingu,” segir hann.

Sjómannsævintýri: Hnúfubakur í þorskanetum


Hreinn á margar óvenjulegar sögur af sjónum. Eftirminnilegast er líklega þegar hnúfubakur lenti í þorskanetum hans sumarið 2003. „Við vorum á þorskanetum og áttum nokkrar trossur úti við Leiðarhöfn. Ég tók eftir að ein þeirra hafði færst nokkuð mikið úr stað. Ég kunni enga skýringu á því. En það var hvalur búinn að koma mikið upp á sama stað. Ég vissi ekkert hvað hann var að gera. Þegar við vorum búin að draga helminginn af trossunni sáum við að hvalurinn var fastur í netunum.”

Eftir mikla erfiðleika tókst að draga hvalinn í átt að landi. „Báturinn gekk eina mílu með hvalinn í eftirdragi. Við vorum tvo tíma inn í bæ, sem vanalega tekur fimm mínútur. Það stóð allur bærinn og fylgdist með, þetta var eins og á þjóðhátíð.”

Samkvæmt fréttum um atvikið mældist hvalurinn 8,95 metrar að lengd og áætlað var að hann hefði verið um 6 tonn að þyngd – jafn langur og báturinn sem var tvö tonn.

Þróun Vopnafjarðar og sjávarútvegs í 80 ár


Hreinn hefur orðið vitni að miklum breytingum á Vopnafirði á rúmlega 80 árum. „Hér hefur allt orðið til í minni ævi. Það eru bara 10-15 hús í þorpinu sem ég man ekki eftir í byggingu. Það voru engir vegir, bara einhverjir ruðningar sem kannski voru færir þrjá mánuði á sumri.”

Á sjöunda áratugnum var mikill uppgangur vegna síldarævintýrisins. „Hér var gríðarlegur uppgangur á síldarárunum, stórútgerð. Það voru fjórar síldarsöltunarstöðvar og svo bræðslan. Það kom hellingur að fólki að til að vinna, bæði við að byggja upp bræðsluna og síðan stúlkur til að salta síld.”

Hefur áhyggjur af stöðu smábátaútgerðar


Á ferlinum veiddi Hreinn mest af hákarli, þorski og grásleppu. Hann hefur áhyggjur af kvótasetningu grásleppunnar „Eftir nokkur ár verður hún líka komin í eigu stórútgerðarinnar. Þeir týnast burtu einn og einn grásleppukarlarnir. Það rennur allt að sama brunni, kvótakerfið er ólánskerfið fyrir dreifbýlið. Það hefði þurft að hugsa það miklu betur.”

Hann segir strandveiðar vera forsendu smábátaútgerðar. „Það lifa einhverjar trillur í nokkur ár í viðbót meðan strandveiðarnar eru. Þær eru ekki bara líflína fyrir smábátaútgerðina heldur fyrir sjávarbyggðir kringum landið. Þú sérð þessa tíu báta sem eru í smábátahöfninni núna og eru ekkert að gera, þeir fara flestir á strandveiðar. Þá kviknar líf. Á öðrum tímum er bara einn bátur hér sem á einhvern kvóta. Nýliðun er engin. Kannski eru tímarnir svo breyttir að menn vilja ekki stunda þessa atvinnugrein.”

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.