Hornfirðingur afhendir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í næstu viku

Soffia Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur mun afhenda bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í Helsinki þriðjudaginn 28. október n.k. Soffía Auður hefur búið á Höfn í rúm tvö ár. Auk fræðistarfa kennir hún bókmenntir við Háskóla Íslands og hefur starfað fyrir Háskólasetrið á Hornafirði.

1003937.jpg

Soffía Auður hefur setið í dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nokkur undangengin ár og verið formaður nefndarinnar síðustu tvö árin. Nefndarmenn eru tíu talsins og koma frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Þegar verk frá Færeyjum, Grænlandi eða af tungumálasvæði Sama eru tilnefnd aðstoða fulltrúar þeirra nefndina. Verðlaunin hafa verið veitt undanfarin fjörtíu og sex ár.

Danska skáldkonan
Naja Marie Aidt hlýtur verðlaunin í ár fyrir smásagnasafn sitt Bavian. Naja Marie fæddist árið 1963 og kom fyrst fram á sjónarsviðið 1991 með ljóðasafnið Svo lengi sem ég er ung. Eftir hana liggja átta ljóðasöfn, þrjár skáldsögur, kvikmyndahandrit og leikverk.

Soffía Auður segir hlakka mjög til verðlaunaafhendingarinnar og Naja Marie sé mjög vel að verðlaununum komin. ,,Það má teljast merkilegt að langt er síðan smásagnasafn hefur fengið verðlaunin" segir hún. ,,Þetta árið voru þó tvö smásagnasöfn sem komu til greina, bæði eftir konur. Þetta eru sterkar og magnaðar sögur hjá Naju, og fjalla um hversdagslíf. Það er einhver katastrófa í þeim öllum og maður fær gæsahúð af að lesa þær. Þetta eru sögur um hversu himna hversdagsleikans er þunn og hve lítið þarf til að allt fari á hvolf. Ég ætla einmitt að leggja út af þessu í ræðu minni við afhendingu verðlaunanna á þriðjudag, því við Íslendingar erum auðvitað að upplifa nákvæmlega þetta svo sterkt."

Nánari upplýsingar um bókmenntaverðlaunin, Naju Marie Aidt og verk hennar má sjá á www.norden.org

med_najamarieaidt001.jpg

Naja Marie Aidt hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.