Hnúfubakur á ferð á Reyðarfirði
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. maí 2025 16:10 • Uppfært 15. maí 2025 16:12
Hnúfubakur hefur síðan í gærkvöldi verið á ferli innarlega í Reyðarfirði. Íbúi í bænum segir hvalinn lengi í kafi í einu og hann virðist á eftir æti sem nóg sé af í firðinum.
Páll Leifsson, náttúruunnandi á Eskifirði, gerði Austurfrétt fyrst vart við um hvalinn. Að sögn Páls kom hvalurinn inn undir Reyðarfjörð í gærkvöldi og var á sveimi nærri bryggjunni.
Gunnar B. Ólafsson, íbúi á Reyðarfirði, sá hvalinn seinni partinn í dag og náði meðfylgjandi mynd af honum. Hvalurinn var þá skammt innan við álverið en stefndi út fjörðinn. Gunnar taldi mögulegt að minna dýr, trúlega kálfur, væri í för með því stærra.
Gunnar segir hnúfubakinn vera lengi í kafi í einu, 15-20 mínútur í senn. Líklega hafi hann elt æti inn á fjörðinn, nóg virðist af því miðað við ferðir og fjölda kríunnar á svæðinu.
Að sögn Gunnars er sjaldgæft að sjá stóra hvali á borð við hnúfubak svo langt inn á firðinum. Það gerist þó af og til, í bland við enn sjaldgæfari tegundir en mjaldur kom þangað fyrir nokkrum árum.
Algengara sé að smáhvalir á borð við hnísu og hrefnu komi þangað. Í vetur hafi hópur hnísa, um 15-20 dýr, komið inn á fjörðinn.