Hjördís Hilmarsdóttir: Ég varð að fá útrás fyrir alla orkuna

Óhætt er að segja að það hafi verið hvalreki fyrir göngufólk og ferðaþjónustuna á Austurlandi þegar Hjördís Hilmarsdóttir flutti til Egilsstaða. Hún hefur lengi haft brennandi áhuga á ferðamennsku, einkum gönguferðum.

Rætt var við Hjördísi í Austurglugga síðustu viku. Hún var í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs til margra ára og og leiddi þar tvö stór verkefni „Perlur Fljótsdalshéraðs“ og „Heiðarbýlin“.

Gefnir voru út prentaðir bæklingar fyrir bæði verkefnin með ítarlegum upplýsingum. Hjördís lét þó ekki þar við sitja, heldur gerði hún einnig kynningarmyndina Heiðarbýlin í nærmynd, sem er ríflega klukkustundar löng og má finna á YouTube.

Hjördís er fædd í Reykjavík en kynntist manni að austan og flutti til hans árið 1983. Þau skildu fjórum árum síðar en höfðu eignast dóttur. Hjördís flutti aftur austu með fjórða sambýlismanni sínum árið 2003 en hann lést 2019.

Hjördís býr ein nú á bænum Gunnlaugsstöðum á Völlum og nýtur lífsins með hundunum sínum, sem allir eru hreinræktaðir Siberian Husky. „Það er alveg dásamlegt að búa hér og ég er aldrei einmana. Ég hef aldrei gefið mér tíma til að láta mér leiðast, hef alltaf eitthvað fyrir stafni,“ segir hún.

Hætti að djamma og fór að ferðast


Þegar Hjördís var um fertugt ákvað hún að endurskoða eigin lífsstíl. Hún hætti að reykja og drekka og ákvað að nota tímann og peningana í önnur og uppbyggilegri áhugamál.

„Þegar ég var yngri fannst mér gaman að fá mér í glas og skemmta mér í góðra vina hópi. Þegar ég var um fertugt fannst mér ég vera farin að drekka of mikið. Ég hafði gert nokkrar tilraunir til að minnka drykkjuna, en með misjöfnum árangri.

Árið 1992 ákvað ég að setja tappann flöskuna og hætta alveg. Og þá varð ég að finna mér eitthvað að gera, því ég varð að fá útrás fyrir alla orkuna, sem ég hef sem betur fer oftast haft nóg af. Það má eiginlega segja að ég hafi endurfæðst þarna.“

Hún stofnaði gönguhóp í Reykjavík, skipulagðir ferðir erlendis fyrir ferðaskrifstofu bróður síns og hefur komið víða. „Ég hef í fljótu bragði ekki tölu á öllum þeim löndum sem ég hef ferðast til, en sennilega eru þau á bilinu 20 til 25, sem er dálítið sérstakt eftir á að hyggja, því ég ferðaðist nær ekkert til útlanda þegar ég var yngri. Þetta var ógleymanlegur og gefandi tími, – og hann er ekki búinn enn; ég er ekki hætt að ferðast þótt ég sé orðin amma og langamma,“ segir Hjördís og hlær.

Perlur Fljótsdalshéraðs og Heiðarbýlin í göngufæri


Eystra gekk hún í Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og átti hvatann að vikulegum sunnudagsgöngum þess. Síðan fylgdu Perlurnar og Heiðarbýlin. „Fljótlega áttaði ég mig á því að á Fljótsdalshéraði eru fjölmargar náttúruperlur, sem að mínu mati höfðu ekki fengið þá athygli sem þær eiga skilið. Upphaflega var þetta hugmynd til að fá fólk til að fara í gönguferðir; rífa sig upp úr sófanum. Við settum upp einskonar hvatningarleik, sem felst í því að fólk kaupir sér stimpilkort og merkir við þá staði sem það heimsækir.

Í framhaldi af þessu vaknaði áhugi okkar á heiðarbýlunum á Jökuldals- og Vopnafjarðarheiði. Um miðja 19. öldina voru á milli 15 til 20 býli á Jökuldalsheiðinni, og 5 eða 6 á Vopnafjarðarheiði, mörg í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Þegar flest var bjuggu þar um 120 manns. Það var hlýindaskeið og bjartsýnt ungt fólk kaus frekar að eignast sitt eigið býli í heiðinni heldur en að vera í vinnumennsku hjá öðrum.

Í Öskjugosinu 1875 fór mikið af gróðurlendi á Austurlandi undir ösku og það harðnaði á dalnum. Margir gáfust upp og fluttu vestur um haf, til Ameríku. Síðustu ábúendurnir á Jökuldalsheiðinni brugðu búi 1946.

Það var ákveðið að gera einnig bækling með ferðalýsingum um heiðarbýlin; Heiðarbýlin í göngufæri og ég tók að mér að sjá um gerð hans. Í honum eru upplýsingar um 26 heiðarbýli.“

Múlaætt Husky-hunda


Hjördís hefur alla tíð verið hænd að dýrum en byrjaði árið 2006 að rækta Siberian Husky-hunda. Múlaættin hefur getið sér góðs orðs og unnið til fjölmargra verðlauna. Þá er Hjördís stofnfélagi í Sleðahundaklúbbi Íslands þar sem hún var nýlega útnefnd heiðursfélagi. „Sumu fólki finnst Husky-hundarnir ógnandi þegar það kemur hér í hlaðið, þeir góla og ólmast. En staðreyndin er hins vegar sú að þeir eru mjög vingjarnlegir og mannelskir.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.