Öskjugos: Danska konungsfjölskyldan gaf rausnarlega til Austfirðinga

Vísindafólk hefur undanfarin misseri fylgst ítarlega með Öskju eftir að land tók að rísa þar haustið 2021 og athyglin hefur enn aukist síðustu vikur. Mikil eyðilegging varð þegar Askja gaus árið 1875.

Í Austurglugga vikunnar er rýnt í samtímafrásagnir fréttablaða frá þeim tíma. Ekkert blað var þá gefið út á Austurlandi og tíðindin virðast hafa tekið mánuð að berast suður til Reykjavíkur.

„Með síðustu póstferð að norðan og austan bárust hingað mikil tíðindi af eldgosum og öskufalli,“ ritar Ísafold þegar komið er fram í maí. Þá er ekki ljóst nákvæmlega hvar gosið er, aðeins að mikinn öskumökk hafi borið yfir yfir Jökuldal, Fljótsdal og niður á Seyðisfjörð.

Skömmu síðar birtist í Íslendingu bréf úr Suður-Múlasýslu. Bréfritari segir að fannir þar hafi orðið gráar en það hafi ekki verið neitt í líkingu við það sem gekk á í næstu sveit, Fljótsdalshéraði.

„Eftir hádegi var sandfokið orðið svo þétt og mikið að ekki sást aðgreini á nokkrum sköpuðum hlut, hvítt þekktist ekki frá svörtu og hvílíkt heljarmyrkur var að enginn gat ímyndað sér þar meira. Sandmekkinum fylgdi skruggugangur og eldingar, hvellirnir voru svo þéttir að hver rak annan og allt loftið var fullt af eldglæringum.

Býli á Jökuldal í eyði


Askan lagðist yfir tún og gróður á Héraði. Íbúar þar brugðust við með að reka búpening sín annað hvort út að Héraðsflóa eða suður á firði. „Hér er allt orðið fullt af fé og hrossum úr hinum sveitunum,“ skrifar íbúinn úr suðursýslunni. Almennt virðist gestunum hafa verið tekið með miklum stuðningi.

Öskufallið stóð ekki í nema nokkra klukkutíma en hafði miklar afleiðingar. Þótt spretta síðar meir yrði ágæt fóru hátt í 20 jarðir á Jökuldal og nágrenni í eyði. Fólk af hamfarasvæðunum hélt meðal annars til Vesturheims í von um betra líf.

Í júnímánuði 1875 var efnt til söfnunar fyrir Austfirðinga. Um leið og tíðindi bárust til Danmerkur hófust samskot þar. „Í broddi fylkingar gekk konungur vor og gaf 1000 krónur, ekkjudrottningin 500 kr., konungsefnið 400 kr. og hin konungsbörnin sinn skerf,“ segir í Ísafold. Dágóðar upphæðir bárust einnig frá Noregi og Englandi auk þess sem staðið var fyrir söfnun á landsvísu. Ísafold hafði frumkvæði að henni og birti reglulega nöfn gefenda og upphæðir hvers og eins.

Askja gaus nokkrum minni gosum á árunum 1920-30. Síðasta gos í Öskju var árið 1961. Það var lítið og stóð stutt þannig umfjöllun um það er ekki mikil nema að í jólablaði Austurlands er að finna frásögn Stefáns Þorleifssonar af ferð hans og fleiri að eldstöðvunum. „Þetta er eins og voldug sinfónía í tónum, ljósi og litum. Hver sem á hjarta, hlýtur að komast í uppnám við svo stórbrotið furðuverk,“ skrifar Stefán.

Vöktun hefur verið efld við Öskju síðustu vikur en ekkert bendir til þess að jarðhræringar séu að aukast. Almannavarnir á Austurlandi hafa þó hvatt íbúa til að búa sig undir gos, meðal annars eiga rykgrímur og vatn.

Mynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt Ófeigsson

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.