Skip to main content

Hægir á uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. nóv 2008 08:51Uppfært 08. jan 2016 19:19

Sýnt er að hægja muni umtalsvert á uppbyggingu í nýjum Vatnajökulsþjóðgarði vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Nú hefur til dæmis verið ákveðið að fresta byggingu þjóðgarðsgestastofu á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Byrja átti á byggingunni í haust.

gjli2l1d.jpg

 

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fundar fljótlega. Vonir eru bundnar við að ríkið veiti fé til uppbyggingar í þjóðgarðinum þrátt fyrir kreppuástand og því beðið ákvarðana um fjárveitingar hins opinbera á næsta ári. 

Vatnajökulsþjóðgarður var formlega stofnaður 7. júní sl. Fyrsta nýja gestastofan átti að rísa á Skriðuklaustri og í kjölfarið stofur á Kirkjubæjarklaustri, Höfn og við Mývatn. Stofan á Skriðuklaustri var áætluð um 565 fermetrar og byggingarkostnaður hennar 170 milljónir króna. Ljóst er að slíkt verkefni hefði komið sér vel í þeim þrengingum sem nú eru á byggingavinnumarkaði á Fljótsdalshéraði.

Dreifbýlis- og hálendisnefnd Fljótsdalshéraðs, sem tók málefni Vatnajökulsþjóðgarðs til meðferðar í vikunni, hvetur bæjarstjórn til að skora á Alþingi að það láti ekki yfirstandandi efnahagsþrengingar koma niður á fjárskuldbindingum til þjóðgarðsins. Nefndin líti svo á að þjóðgarðurinn geti orðið dreifbýli sveitarfélagsins mikil lyftistöng. Þá telur nefndin að kynning þjóðgarðsins hefði mátt vera meiri í fjórðungnum og beinir því til svæðisráðs að halda hið fyrsta opinn fund þar sem kynntar verði hugmyndir að verndaráætlun, skipulagi þjóðgarðsins og atvinnumöguleikum í tengslum við hann.

gjli2l1f.jpg