Skip to main content

Heyrnarmælir fyrir nýbura gefinn á fjölskyldudeild HSA

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. maí 2025 13:17Uppfært 28. maí 2025 13:19

Kvenfélag Reyðarfjarðar afhenti nýverið heyrnarmæli fyrir nýbura sem félagið keypti til fjölskyldudeildar Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Ljósmóðir segir tækið spara nýbökuðum foreldrum miklar ferðir.


Það var síðastliðið haust sem Marta Guðlaug Svavarsdóttir frá kvenfélaginu hafði samband við HSA til að ræða möguleika á þjónustunni í heimabyggð. Félagið safnaði fyrir mælinum sem afhentur var nýverið.

Oddný Ösp Gísladóttir, ljósmóðir og deildarstjóri fjölskyldudeildar HSA, segir mælinn bæta aðstöðu foreldra á Austurlandi verulega. „Heyrnarmæling nýbura hófst á Íslandi árið 2008 á Landspítalanum en árið 2012 bættist Sjúkrahúsið á Akureyri við.

Síðan hafa aðrir staðir bæst við. Austfirðingar hafa til þessa þurft að fara til Akureyrar eða Reykjavíkur í heyrnarmælingu. Þess vegna hafa færri börn héðan verið mæld og þau eru mæld síðar. Þetta þýðir að ef upp koma vandamál þá hafa þau greinst síðar hjá þeim sem fæðast hér en annars staðar,“ útskýrir Oddný Ösp.

Þakklátar Kvenfélagi Reyðarfjarðar


Áætlað er að 1-2 af hverjum 1000 fæddum börnum fæðist með einhvers konar heyrnarskerðingu, sem þýðir 6-10 börn á ári á Íslandi. Góð heyrn skiptir ekki síst máli fyrir málþroska barna. Seinkun á greiningu seinkar þess vegna málþroskanum.

Mælt er með að heyrn barns sé skimuð fyrir eins mánaðar aldur og greining á heyrnarleysi fyrir þriggja mánaða aldur þannig hægt sé að bregðast við.

Oddný Ösp fagnar tilkomu mælingatækisins. „Þetta er mikilvæg breyting fyrir nýbura á Austurlandi. Umfram allt erum við hjá fjölskyldudeild HSA þakklátar fyrir aðkomu Kvenfélags Reyðarfjarðar. Hún sýnir mikilvægi kvenfélaganna okkar í að tryggja konum og fjölskyldum þeirra bestu mögulegu þjónustu á hverjum tíma.“

Frá afhendingu mælisins, frá vinstri: Fólk á mynd Laufey Herbertsdóttir, ljósmæðurnar Hrönn Hilmarsdóttir, Oddný Ösp Gísladóttir, Salný Guðmundsdóttir og Ingibjörg Birgisdóttir og læknirinn Eva Albrechtsen. Laufey og Eva komu frá Heyrna- og talmeinastöðinni til að kenna ljósmæðrunum á mælinn auk þess að halda fræðsluerindi fyrir ljósmæður og lækna HSA. Mynd: Aðsend