Helgin: Útifundur gegn átökum í Palestínu og viðburðir í þágu góðra málefna
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. sep 2025 11:06 • Uppfært 05. sep 2025 11:06
Sífellt stækkandi bakgarðshlaup á Reyðarfirði, góðgerðartónleikar og einn af fjölda útifunda gegn átökunum í Palestínu eru meðal þeirra viðburða sem haldnir verða á Austurlandi um helgina. Ferðafélögin eru einnig með viðamikla dagskrá.
Klukkan tíu í fyrramálið verður ræst bakgarðshlaup frá Eyrinni líkamsræktarstöð á Reyðarfirði. Þetta er annað árið í röð sem hlaupið er þreytt en það á rætur í að heimamaðurinn Gunnar Lárus Karlsson hljóp slíkt hlaup árið 2023 bókstaflega úr garðinum heima hjá sér.
Í bakgarðshlaupi er hlaupinn 6,7 km hringur sem þátttakendur hafa klukkutíma til að klára. Að lokum stendur einn uppi sem sigurvegari, sá sem nær að ljúka flestum hringjum.
Fleiri útgáfur eru í boði, 4,4 km fyrir þau sem vilja fyrst og fremst vera með og 8,7 km fyrir þau sem virkilega sækjast eftir áskorun. Allur ágóði hlaupsins fer til Arnarins, félags sem styður börn og unglinga á aldrinum 9-17 ára sem misst hafa foreldri eða annan náinn ástvin.
Þjóð gegn þjóðarmorði
Klukkan 14:00 á morgun er boðað til fjöldafundar í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum. Þar er mótmælt hernaði Ísraelsríkis gegn Palestínumönnum á Gaza undir yfirskriftinni „Þjóð gegn þjóðarmorði.“
Fleiri fundir eru haldnir víðar um land á sama tíma í samvinnu verkalýðsfélaga, mannúðarsamtaka og fleiri frjálsra félagasamtaka. Markmið fundanna er að þrýsta á ríkisstjórn Íslands um að grípa til alvöru aðgerða sem sýni afstöðu gegn því sem aðstandendur fundarins lýsa sem þjóðarmorði.
AFL Starfgreinafélag Austurlands og Soroptimistaklúbbur Austurlands eru meðal þeirra félaga sem standa að fundinum.
50 ár frá friðlýsingu Teigarhorns
Tónleikar með lögum Ozzy Osbourne og hljómsveitarinnar Black Sabbath verða haldnir í Valaskjálf klukkan 21:30 á morgun. Í hljómsveit hússins er meðal annars ungt tónlistarfólk af Austurlandi. Ágóðinn rennur til Píeta-samtakanna.
Á sunnudag verður haldið upp á að 50 ár eru liðin síðan Teigarhorn í Berufirði var friðlýst sem náttúruvætti, en staðurinn er einn þekktasti fundarstaður geislasteina í heiminum. Klukkan 13:00 flytur María Helga Guðmundsdóttir, jarðfræðingur, fyrirlestur um kortlagningu jarðfræði Austurlands og sérstöðu svæðisins. Í framhaldinu verður opnuð ljósmyndasýning á verkum Nicoline Weywadt sem bjó og starfaði á Teigarhorni.
Þrjár gönguferðir
Ferðafélög Fjarðamanna og Fljótsdalshéraðs standa samanlagt fyrir þremur göngum um á morgun. Í boði eru ferðir yfir Þórdalsheiði, um Eyrartind og Gráfell til Stöðvarfjarðar eða fjölskylduferð til Vöðlavíkur.
Að lokum má minnast á að lokahóf yngri flokka Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar verður haldið á SÚN-vellinum í Neskaupstað í hádeginu á morgun, fyrir síðasta heimaleik meistaraflokks karla gegn Víði.