Skip to main content

Helgin: Tvær nýjar sýningar opna á Skriðuklaustri

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. apr 2025 13:52Uppfært 11. apr 2025 13:52

Fjórir ólíkir menningarviðburðir eru auglýstir í Fljótsdalshreppi, þar af opnanir tveggja nýrra sýninga á Skriðuklaustri. Líflegt verður einnig á Seyðisfirði um helgi með nýrri sýningu, tónleikum og vélsleðakeppni á Fjarðarheiði.


Dagskráin í Fljótsdal byrjar klukkan 10:30 í fyrramálið með útgáfuhófi í Fljótsdalsgrund fyrir nýja þrautabók um kirkjuhurðina frá Valþjófsstað. Hurðin var þar í um 600 ár og telst einn af helstu dýrgripum íslensku þjóðarinnar en hún er einn sjö lykilgripa á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Safnið stendur að útgáfunni ásamt Minjasafni Austurlands.

Klukkan 13:00 opnar ljósmyndasýning Ragnhildar Aðalsteinsdóttur frá Vaðbrekku á Jökuldal. Tíu ár eru síðan hún vann stórt ljósmyndaverkefni þar sem hún ljósmyndaði bændur á Jökuldal. Á Klaustri verða sýndar nokkrar af bestu myndum verkefnisins. Sýningin stendur til 9. maí.

Klukkustund síðar opnar þar líka sýningin Snagar. Um er að ræða sýningu með verkum 30 hönnuða, listafólks, handverksfólks og arkitekta sem nálgast veggsnaga á fjölbreyttan hátt,: í mynd, efni og formi um leið og velt er upp spurningunni um hvað sé snagi. Listamennirnir eru bæði innlendir og erlendir, nýútskrifaðir sem landsþekktir. Sambærileg sýning var haldin fyrir tæpum 30 árum á Listahátíð í Reykjavík og eru nokkrir sýnenda þá aftur með. Sýningin er samstarfsverkefni Gunnarsstofnunar, HAKK Gallerís og Handverks og hönnunar. Hún stendur til 4. maí.

Að lokum verða opnir æfingatónleikar með Kammerkór Egilsstaðakirkju í Valþjófsstaðakirkju klukkan 17:30 en kórinn verður við æfingar í kirkjunni um helgina.

Á Seyðisfirði opnar í Skaftfelli sýningin „Everything with Tenderness.“ Ra Tack er er belgískur listmálari sem búsett hefur verið á Seyðisfirði í nokkur ár. Hán sýnir þar ný olíumálverk. Á sýningunni verða einnig skúlptúrar eftir Julie Lænkhol, sem býr og starfar í Danmörku.

Á hádegi hófst á Fjarðarheiði keppni í Íslandsmótinu í snjókrossi, en þar verða eknar fjórða og fimmta umferð mótsins. Úrslitaumferð dagsins er klukkan 14:00. Keppni á morgun byrjar klukkan 11:00 og verða úrslitin ekin klukkan 15:00.

Að lokum munu Jonni og Jitka halda litla tónleika í Bláu kirkjunni á sunnudagskvöld. Þeir hefjast klukkan 20:00.

Mynd: Gunnarsstofnun