Skip to main content

Helgin: Tónleikar, listsýningar og bókakynningar

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. maí 2025 14:33Uppfært 02. maí 2025 14:33

Tónleikar með bæði poppi og klassík, bókarkynningar, kakóafhöfn, gönguferð og opnun á myndlistarsýningu er meðal þess sem í boði er á Austurlandi um helgina. Þá verður pólsk-íslenska listahátíðin Vor sett í sjötta sinn.


Setningarathöfnin verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 15:00 á morgun. Hátíðinni var komið á laggirnar til að þjóna pólska samfélaginu á Austurlandi, skapa vettvang fyrir pólska listamenn hérlendis og kynna pólska menningu fyrir öðrum sem hér búa.

Listamenn sem öðlast hafa viðurkenningu á alþjóðavísu eru meðal þeirra sem sýna í ár. Má þar nefna Andrri og Liu Dostliev, sem voru fulltrúar Úkraínu á Feneyjatvíæringnum í fyrra. Bart Urbański, ljósmyndari, hefur myndað pólska innflytjendur á Íslandi. Þá dvelur Dr. Zofia Nierodzińska í listamannaíbúð Sláturhússins en hún vinnur málverk þar sem innblásturinn er samfélag og aðstæður pólskra innflytjenda á Íslandi.

Tónleikar


Þrír af helstu liðsmönnum íslenskra sveitaballahljómsveita um aldamótin standa saman að tónleikum í Valaskjálf í kvöld. Er þar um að ræða Gunna Ólason úr Skítamóral, Hreim Örn Heimisson úr Landi og sonum og Magna Ásgeirsson frá Borgarfirði, sem lengst af hefur verið kenndur við Á móti sól.

Hinir tónleikar helgarinnar verða í Egilsstaðakirkju á sunnudag klukkan 15:00 þar sem Kammerkór Egilsstaðakirkju verður með árlega vortónleika sína. Þemað að þessu sinni er franskt með verkum eftir tónskáld á borð við Pierre de la Rue, Clément Janequin og Jean-Philippe Rameau.

Atburðir á Seyðisfirði


Á Vesturvegg Skaftfells á Seyðisfirði opnar sýningin Paradísarmissir með verkum Sindra Dýrasonar. Hún er innblásin af samnefndu skáldverki John Milton sem segir frá því þegar djöfullinn lokkaði Adam og Evu út úr aldingarðinum Eden. Sindri vann að sýningunni á Seyðisfirði en í henni birtast myndir af guðum og djöflum í litadýrð.

Á Seyðisfirði halda líka áfram Ljósmyndadagar sem byggja á fjölbreyttum viðburðum sem snúast um ljós- og kvikmyndun.

Bókakynningar


Tvær bókakynningar verða á Egilsstöðum um helgina. Milli klukkan 13-15 verður Brjótagjafabókin kynnt í verslun Húss handanna. Bókin kom út í byrjun árs og skrifuð af fimm ljósmæðrum.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi kynnir bók sína Ég er ekki fullkominn á Hótel Berjaya klukkan 14:00 á sunnudag. Hann segir þar hvernig hann hefur tekist á við hamlandi kvíða og unnið sig út út honum, með bæði sigrum og áföllum.

Hreyfing og íþróttir


Ferðafélag Fljótsdalshéraðs stendur fyrir göngu í fyrramálið upp Tröllkonustíg í Fljótsdal. Farið verður af stað frá húsnæði þess við Tjarnarás 8 á Egilsstöðum klukkan níu en gangan sjálf hefst frá félagsheimilinu Végarði. Gengið verður upp í 300 metra hæð og síðan út að Bessastaðaárgili og þaðan niður að Skriðuklaustri.

Heiðrún María Magnúsdóttir stendur fyrir súkkulaði athöfn með íhugun og tónheilun í Hallormsstaðaskóla klukkan 16:00 á sunnudag.

Keppni hefst í annarri deild karla í knattspyrnu. KFA tekur á móti Kormáki/Hvöt á morgun en Höttur/Huginn heimsækir Gróttu. Í úrvalsdeild kvenna á FHL útileik á móti Fram.