Skip to main content

Helgin: Stöð í Stöð vekur athygli á lífinu á Stöðvarfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jún 2025 12:00Uppfært 27. jún 2025 12:00

Bæjarhátíðin Stöð í Stöð hófst í gærkvöldi og heldur áfram yfir helgina. Alþjóðleg listasýning opnar í samtímalistasafninu Ars Longa á Djúpavogi. Fjöldi fjölbreyttra viðburða er annars um allt Austurland yfir helgina.


„Við byrjuðum á Íslandsmótinu í bubblubolta. Fimm lið kepptu og UMF Skarphéðinn vann. Sólin braust fram meðan mótið stóð og gerði allt betra. Það þykir víst gott að vökva knattspyrnuvelli fyrir leiki en það var búið að vökva mjög vel síðustu daga,“ segir Bjarni Stefán Vilhjálmsson, formaður íbúasamtaka Stöðvarfjarðar sem fara fyrir hátíðinni.

Í kvöld verður bubblubolti fyrir allan aldur og partýbingó og pöbbkviss í íþróttahúsinu. Aðaldagskráin verður á morgun í miðbænum og henni lýkur með froðubraut sem er ákveðinn hápunktur hátíðarinnar. „Það er lagður dúkur á Balann og slökkviliðið sprautar froðu. Börnunum finnst mjög gaman að leika sér í henni.“ Lokaviðburðurinn er síðan ball í íþróttahúsinu.

Stöðvarfjörður er skilgreindur sem brothætt byggð og þar er í gangi samfélagsþróunarverkefni með stuðningi Byggðastofnunar. Bjarni Stefán segir hátíð eins og Stöð í Stöð, sem er haldin á tveggja ára fresti, skipta máli fyrir samheldni samfélagsins í byggðinni.

„Fyrst og fremst vorum við með bæjarbúa í huga þegar við endurvöktum hátíðina árið 2012 og þeir hafa alltaf mætt vel, enda byggist hátíð eins og þessi fyrst og fremst á þátttöku.

En hún gerir líka töluvert að því leyti að fólk kemur heim í gamla bæinn sinn. Heilu stórfjölskyldurnar hittast og ég veit um minnst eitt ættarmót. Síðan kemur fólk af öðrum stöðum. Allt sér það að þetta er fallegur og líflegur bær. Hér er til dæmis búið að koma á laggirnar kaffibrennslu, síðan er bakstur inni í Steinasafni og alltaf eitthvað í gangi í Sköpunarmiðstöðinni.“

Lokadagar gönguvikunnar


Ýmislegt fleira er í gangi þessa helgi. Gönguvikunni í Fjarðabyggð lýkur en hún lagði sitt til hátíðahalda á Stöðvarfirði í gær með göngum á Sauðbólstind og Landabrúnir og kvöldvöku í Steinasafninu. Eftir hádegi í dag er fjölskylduganga frá skíðaskálanum í Oddsskarði á Sellátratind og sjóræningjakvöldvakan á Mjóeyri. Á morgun er ganga frá Mjóeyri yfir í Viðfjörð, Sandvík og Vöðlavík og fjölskylduganga í Vöðlavík áður en lokapartýin verða á Eskifirði.
Alþjóðlegir listamenn

Í samtímalistasafninu Ars Longa á Djúpavogi opnar sumarsýning þess, sem kallast „Í lággróðrinum.“ Á henni er leitast við að kanna kerfin sem binda saman náttúru og menningu. Þar sýna listamenn frá Íslandi, Bandaríkjunum, Kanada, Póllandi og Indlandi. Becky Forsythe og Þórhildur Tinna Sigurðardóttir eru sýningarstjórar.

Á Skriðuklaustri í Fljótsdal mun hljóðlistamaðurinn Tristan Visser sýna mynd sína Arctic-Mirage – Echo from the North, sem fjallar um ferð hans á hvalaslóðir í norðurhöfum á seglskútu. Hann flytur lifandi tónlist við myndina en hann sækir innblástur að henni í hvalasöng. Hann sýnir einnig í Gallerí Klaustri heimildamynd um rannsókn sína á samskiptum við hvali í gegnum tónlist.

Bílar, brúður, bók og tónlist


Í Ylsgrúsum við Egilsstaði fer þriðja umferðin í Íslandsmótinu í torfæruakstri fram. Byrjað verður að keyra klukkan tíu í fyrramálið. Í kvöld klukkan 20 verður á planinu við Nettó hittingur hjá bíla- og tækjaáhugafólki.

Brúðubíllinn var endurvakinn fyrir sumarið. Hann verður á Egilsstöðum og Stöðvarfirði á morgun en Djúpavogi á sunnudag. Hann sýnir leikritið Leikið með liti sem byggir á því besta úr safni bílsins.

Tónlistarmaðurinn KK er á ferð um landið. Hann spilaði í Tónspili í gærkvöldi, verður á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld og endar ferðina á Faktor á Djúpavogi.

Þá verður á morgun haldið útgáfuhóf bókarinnar „Hallormsstaðaskógur – söguljóð fyrir börn“ í Húsi handanna á Egilsstöðum klukkan 13:00. Höfundur bókarinnar er Ása Hlín Benediktsdóttir, en hún stundaði nám við Hallormsstaðaskóla í vetur.