Skip to main content

Helgin: Sjómannadagurinn er alltaf stór

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. maí 2025 14:22Uppfært 30. maí 2025 14:27

Hátíðahöld sjómannadags teygja sig yfir allt að fimm daga þar sem mest lætur í Fjarðabyggð. Dagskrá helgarinnar er nokkuð hefðbundin. Skipuleggjandi segir að þátttaka sé almennt góð.


„Við höfum verið með fjögurra daga hátíðahöld í nokkur ár. Sjómannadagurinn er alltaf stór hátíð,“ segir Kristinn Þór Jónasson sem leiðir dagskrá sjómannadagsins á Eskifirði.

Þar hófst fögnuðurinn í gær og heldur áfram í kvöld með sundlaugarpartýi. Á Norðfirði var byrjað á miðvikudagskvöld með tónleikum. Óvenju gott tækifæri er til margra daga hátíðahalda í ár þar sem fimmtudagurinn var frídagur.

Hátíðahöld helgarinnar eru hefðbundin. Á Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði gefst tækifæri til að fara í siglingu á morgun en á Djúpavogi og Borgarfirði á sunnudag. Dagskrá er einnig á Vopnafirði. Víða verður fjölskyldudagskrá á morgun meðan sunnudagurinn markast víðast af messu, minningum um látna sjómenn og kaffisamsæti.

Ekki lengur áhafnirnar sem keppa sín á milli


Á Eskifirði verður svokölluð fjórðungskeppni, þar sem mismunandi lið reyna með sér í meðal annars búbblubolta og koddaslag. „Sjómannadagurinn hér áður fyrr var aðeins einfaldari. Minnisstæðast eru þrautirnar sem áhafnir bátanna kepptu í, siglingin og kaffið,“ segir Kristinn Þór sem er uppalinn Eskfirðingur.

Þetta form hefur aðeins breyst í áranna rás. „Við verðum með þrautir en það hefur bara ein áhöfn skráð sig. Hin vegar eru sjómenn af öðrum skipum hér og þar í hinum liðunum sem hafa skráð sig og koma frá Eskifirði og Reyðarfirði. Það hefur gengið mjög vel í ár að fá lið.

Það hefur breyst að sjómenn líta meira á þetta sem frídag frekar en þeir séu að taka þátt í þrautum og við erum mjög þakklát þeim sem gefa sér tíma til að taka þátt,“ segir Kristinn.

Fyrir utan sjómannadagshátíð sem vakin er athygli á í fréttum á heimasíðum Fjarðabyggðar og Múlaþings, má benda á tónleika sem Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs heldur á Tehúsinu á Egilsstöðum á morgun klukkan 14:00. 

Í gærkvöldi var dagskrá á Mjóeyri með stuðningi Siglingaklúbbs Austurlands og Björgunarsveitarinnar Brimrúnar. Mynd: Sjómannadagurinn Eskifirði