Helgin: Rafræna tímatakan allt annað líf

„Ormurinn hefur verið að festa sig í sessi, enda er leiðin bæði skemmtileg og gríðarlega falleg,“ segir Ester Sigurðardóttir, framkvæmdarstjóri UÍA, en hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn fer fram á morgun.Er þetta sjötta árið sem hjólað er undir merkjum Ormsins á Héraði. Hjólaleiðir eru tvær, annars vegar 68 km og hins vegar 103 km og boðið er uppá einstaklings- og liðakeppni. Keppnin er opin öllum 12 ára og eldri. Hjólað er umhverfis Löginn í styttri hringnum en inn í botn Fljótsdals í þeim lengri. Rás- og endamark er staðsett á Egilsstöðum.

Keppendur verða ræstir út klukkan níu í fyrramálið. „Undirbúningur gengur vel og skráningar líta mjög vel út, en eins og staðan er í dag eru keppendur 37 talsins og þar af eru fjögur lið. Við viljum svo hvetja alla Héraðsbúa og gesti að koma og fagna keppendum þegar þeir koma í mark.“

Í fyrra var í fyrsta skipti rafmagnstímataka sem gafst vel og verður henni haldið áfram. „Það er allt annað, bæði er tímatakan mun nákvæmari og skilvirkari, auk þess að þetta léttir lífið fyrir okkar starfsfólk að þurfa ekki að vera á skeiðklukkunni.“

Mikil áhersla er lögð á öryggismál, unnið er í góðu samstarfi við lögregluna. Fjöldi sjálfboðaliða kemur að framkvæmd keppninnar og hafa skipuleggendur keppninnar fengið mikið hrós frá þátttakendum fyrir öfluga og sýnilega brautarvörslu. „Það er mikill metnaður lagður í að öll umgjörð keppninnar beri austfiskri menningu, sögu og náttúru glöggt vitni og hafa verðlaun til keppenda tekið mið að því og vakið verðskuldaða athygli,“ segir Ester.

Ormsteiti
Mikið verður um að vera á Egilsstöðum um helgina á hinu árlega Ormsteiti, en einnig verður 70 ára afmæli Egilsstaða fagnað. Hverfaleikar, bæjargrill, tónleikar og dansleikur verða á dagskrá svo eitthvað sé nefnt. Dagskrána í heild sinni má sjá hér.

Gleðihlaup og Hýr halarófa á Seyðisfirði
Það verður litrík helgi á Seyðisfirði sem hefst með Gleðihlaupinu í kvöld og nær hámarki með gleðigöngunni Hýru halarófunni á morgun. Fjölmargir aðilar koma að gleðinni og bærinn mun iða af lífi og litum. Hér má lesa viðtal við forsvarsmann gleðigöngunnar. Hér má sjá dagskrá helgarinnar. 

Hvert stefnir þú?
Hvert stefnir þú? er tveggja daga námskeið- og vinnustofa í persónulegri stefnumótun, en fyrri hluti þess er á morgun og sá seinni laugardaginn 19. ágúst. Það er María Kristmundsdóttir, sérfræðingur í straumlínustjórnun, hjá Alcoa Fjarðaáli sem stendur fyrir námskeiðinu. Hér má lesa skemmtilegt viðtal við Maríu og finna upplýsingar um hvernig á að skrá sig til leiks.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar