„Þetta er draumanámskeiðið mitt“

„Ég vona að hver og einn gangi út með sitt leiðarljós og áætlun um framhaldið,“ segir María Kristmundsdóttir, sem stendur fyrir námskeiði og vinnustofu í persónulegri stefnumótun. María er í yfirheyrslu dagsins.


Hvert stefnir þú? er tveggja daga námskeið- og vinnustofa, en fyrri hluti þess er á morgun og sá seinni laugardaginn 19. ágúst.

„Í fyrri hlutanum, á morgun, móta þátttakendur sína persónulegu stefnu með því að kynnast sjálfum sér, fyrir hvað þeir vilja standa og hvert þeir vilja stefna. Í seinni hlutanum þann 19. ágúst gera þátttakendur svo áætlun um hvernig þeir ætla að komast þangað sem þeir stefna. Við finnum út hvað veitir okkur gleði og orku til framkvæmda, sköpum góðar venjur og vinnum að markmiðum okkar. Einnig ræðum við hvernig við nýtum tímann, skerpum einbeitinguna og finnum leiðiri til að stjórna því endalausa áreiti sem á okkur dynur í nútímanum. Námskeiðið er samsett úr stuttri hagnýtri fræðslu, hóp- og einstaklingsæfingum,“ segir María.

María segist trúa því að hver einstaklingur þurfi að taka stjórnina á eigin lífi, finna sinn tilgang og lifa samkvæmt því. „Frá því ég var krakki hef ég alltaf verið forvitin um hvað gerist inni í kollinum á okkur og drífur okkur áfram. Í gegnum tíðina hef ég því viðað að mér ýmsum fróðleik þessu tengdu, úr ýmsum stjórnunarfræðum og jákvæðri sálfræði. Ég setti þetta námskeið saman úr því sem hefur reynst mér vel og ég tel hagnýtt fyrir alla. Það má eiginlega segja að þetta sé draumanámskeiðið mitt.

Enn eru laus pláss og skráning fer fram gegnum mariakristm.wordpress.com.

Fullt nafn: María Ósk Kristmundsdóttir.

Aldur: 36 ára.

Starf: Sérfræðingur í straumlínustjórnun hjá Alcoa Fjarðaáli.

Maki: Þórir Björn Guðmundsson, vélvirki og véliðnfræðingur.

Börn: Hanna Sólveig 8 ára, Kristmundur Karl 5 ára og Vigdís Klara 10 mánaða.

Hver er þinn helsti kostur? Að horfa út fyrir kassann.

Hver er þinn helsti ókostur? Að ætla mér alltof mikið.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Stórurð.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Mjólk, smjör og egg.

Tæknibúnaður? Android sími, Lenovo fartölva, skífuúr og nýjasta græjan mín Marshall Stanmore Bluetooth hátalarinn sem ég fékk í afmælisgjöf frá kallinum.

Hvað er í töskunni þinni? Bleyjur, bleyjuþurkur, peli, snuð, AD krem, síminn, veskið og lyklarnir.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil? Geðlæknir eða sálfræðingur.

Fyrsta æskuminningin þín? Þegar bróðir minn fæddist, ég var 4 ára og var send í pössun til Grétars föðurbróður míns og Ruthar konunnar hans.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Brjóta saman þvott með hugarafli.

Besta bók sem þú hefur lesið? A Man‘s Search for Meaning eftir Viktor Frankl.

Mesta undur veraldar? Líf.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Ég er í fæðingarorlofi, svo dagurinn minn snýst oftast um að sinna þörfum 10 mánaða Vigdísar Klöru; leika, gefa að borða, skipta um bleyju, setja að sofa og svo endurtaka ca þrisvar sinnum yfir daginn.

Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Í fæðingarorlofi eru allir dagar eins.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Gagnkvæm virðing og samkennd milli fólks myndi breyta miklu, t.d. enda mansal barna, flóttamannavanda og stríð.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Minn bucket listi er tómur – þarf kannski eitthvað að endurskoða það mál.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Æðruleysi.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Brjóta saman þvott.

Draumastaður í heiminum? Gríska eyjan Santorini er dásamleg, en mig langar líka að heimsækja Japan.

Duldir hæfileikar? Ég baka góða hjónabandssælu.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Kenna námskeiðið mitt og kíkja á Ormsteiti ásamt brósa mínum sem er í heimsókn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar