Helgin: Ræða geðrækt í kjölfar náttúruhamfara á stóru málþingi
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. okt 2024 14:51 • Uppfært 18. okt 2024 14:52
Málþing um geðrækt í framhaldi af skriðuföllunum á Seyðisfirði verður haldið í Herðubreið á morgun. Tvær efnilegar austfirskar pönksveitir halda sameiginlega tónleika í kvöld.
Geðræktarmálþingið „Upp, upp mín sál“ hefst í Herðubreið klukkan 10:00 í fyrramálið. Að því standa Múlaþing og Samráðshópur um áfallahjálp á Austurlandi með stuðningi frá Rótarýklúbbi Héraðsbúa.
Meðal þeirra sem flytja erindi á málþinginu eru Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu um stöðu flóðavarna og Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar og fræðslu hjá almannavörnum um samkennd og samheldni í kjölfar áfalla. Bæði voru áberandi í viðbrögðum fyrst eftir skriðuföllin 2020.
Á Seyðisfirði í dag klukkan 16:00 opnar ný sýning á Vesturvegg Skaftfells bistró. Hanna Christel Sigurkarlsdóttir sýnir þar lágmyndir sem hún hefur unnið með að undanförnu. H´n notar í verkum sínum endurtekið textíl til að kalla fram liti og áferð.
Austfirsku unghljómsveitirnar Chögma og Sárasótt halda sameiginlega tónleika klukkan 21:00 í Valaskjálf á Egilsstöðum. Chögma náði í vor þriðja sætinu í Músíktilraunum meðan Sárasótt á uppruna sinn á Stöðvarfirði og hefur komið fram á nokkrum tónleikum, einkum á Austurlandi, undanfarin ár.
Borgfirðingurinn Aldís Fjóla heldur sína fyrstu tónleika á Egilsstöðum þegar hún kemur fram í Tehúsinu annað kvöld klukkan 20:30. Hún kemur fram með hljómsveit og tekur bæði frumsamin lög sem og nokkur uppáhaldslög eftir aðra listamenn. Aldís Fjóla gaf fyrstu sólóplötu sína út árið 2020 og þá næstu í fyrra. Lagið Quiet the Storm af henni fór í efsta sæti vinsældarlista Rásar 2.
Ljósmyndarinn Stuart Richardson verður með leiðsögn um sýningu sýna Undiröldu í Sláturhúsinu í dag klukkan 15:00.