Skip to main content

Helgin: Opið hús á Hallormsstað

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. maí 2025 13:29Uppfært 16. maí 2025 13:29

Opið hús verður í Hallormsstaðaskóla á morgun þar sem nám skólans verður kynnt. Tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant kemur austur og spilar í Tónspili í Neskaupstað. Fleiri tónleikar og viðburðir eru framundan á Austurlandi um helgina.


Vorsýningar með afurðum nemenda Hallormsstaðarskóla hafa fylgt skólanum um árabil. Að þessu sinni er vordagurinn helgaður námsleið í skapandi sjálfbærni, en námið færist upp á háskólastig í haust.

Á morgun frá 13-15 verður hægt að koma í skólann, skoða aðstöðu, fá innsýn í námið og verkefni sem því tengjast og ræða við kennara og nemendur.

Tónleikaröðin Strengir heldur áfram í Neskaupstað. Annað kvöld er röðin komin að Júníusi Meyvant úr Vestmannaeyjum sem hefur átt nokkur af vinsælustu lögum landsins undnafarinn áratug. Lög hans hafa varið víða og var eitt þeirra, Color Decay, valið lag ársins á KEXP stöðinni í Bandaríkjunum árið 2014.

Hljómsveitin BASK kemur fram á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld klukkan 21:00. Um er að ræða sveit sem sprottið hefur upp úr öflugu tónlistarstarfi í Menntaskólanum á Egilsstöðum síðustu ár. Spiluð verða lög eftir Bítlana, Fleetwood Mac, Rush, Dire Stratis og fleiri.

Kvennakórinn Héraðsdætur heldur vortónleika sína í Egilsstaðakirkju á sunnudagskvöld klukkan 20:00. Héraðsdætur hafa lagt áherslu á að æfa fjölbreytta tónlist af íslenskum og erlendum uppruna en gjarnan lagt áherslu á létta og fjörlega tónlist sem og lög eftir austfirsk tónskáld. Kórinn heldur tónleika að vori og fyrir jól.

Á Reyðarfirði verður farið í bæjargöngu á vegum Ferðafélags Fjarðamanna undir leiðsögn Þórodds Helgasonar. Lagt verður af stað frá Molanum klukkan 11 á morgun. Katrín Reynisdóttir leiðir göngu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs upp að Tvísöng, hljóðskúlptúr á Seyðisfirði, á sunnudag. Farið verður frá skrifstofu félagsins á Egilsstöðum klukkan tíu.