Skip to main content

Helgin: Mikið fyrir danselskendur og lífrænn dagur í Vallanesi meðal viðburða

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. sep 2025 12:51Uppfært 19. sep 2025 14:18

Þó veturinn sé aðeins farinn að minna á sig fækkar þeim ekkert afþreyingarmöguleikunum sem íbúar Austurlands geta notið og komandi helgi þar engin undantekning. Yngra fólk getur tekið þátt í ritlistarsmiðju, danselskendum býðst að prófa sig áfram fyrir danslistaverkið Dúettar, Múlakollur heimsóttur, opið hús hjá bændunum í Vallanesi og ekki má gleyma Fánadegi Liverpool-klúbbsins.

Aðdáendur Liverpool halda upp á Fánadag í Tehúsinu sem hefst klukkan 10.30 í fyrramálið en nágrannaslagur Liverpool og Everton verður svo sýndur í kjölfarið. Klukkan 11 opna þau Eymundur og Eygló í Vallanesi dyr sínum gestum á Lífræna deginum þar sem hægt verður að prófa matinn á veitingastað býlisins, kynna sér fjölbreytta framleiðsluna og jafnvel taka þátt í uppskerustörfum. Á sama tíma heldur danshópurinn Dans Afríka danssmiðju fyrir tíu ára og yngri í Valaskjálf og þangað allir velkomnir með forráðamönnum.

Litlu síðar, klukkan 13, verður kynningarfundur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum vegna danssýningarinnar Dúettar sem setja á upp í sama húsi næsta vorið og eru allir danselskandi einstaklingar velkomnir. Á sama tíma heldur hinn ungi rithöfundur Embla Bachmann ritlistarsmiðju fyrir grunnskólanema í 7. til 10. bekk í Bókasafni Héraðsbúa.

Á sunnudagsmorgunn klukkan 10 verður brottför frá skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs en í kjölfarið skal ganga á Múlakollinn í góðum félagsskap. Þann sama dag verður brúðuleiksýning þar sem Fóa og Fóa Feykirófa skemmtir smáfólkinu. Annars vegar klukkan 13 í Herðubreið á Seyðisfirði og klukkan 16 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Bókasafnið breytist í samfélagsmiðju

Athygli vekur hve drjúg viðburðadagskrá er framundan í Bókasafni Héraðsbúa eða af þeirra hálfu en segja má að þar verði eitthvað spennandi að gera nánast daglega næstu vikurnar. Ritlistarsmiðja Emblu Bachmann er aðeins sú fyrsta af nokkrum sem haldnar verða og fyrir mismunandi aldurshópa en í lok mánaðarins heldur Ævar Örn Benediktsson bæði ritlistasmiðju og sögusmiðju. Þá  eru nokkur námskeið framundan fyrir þá sem áhuga hafa á sögu og ættfræði og vilja læra hvernig best sé að nálgast upplýsingar þar að lútandi. Þau námskeið haldin í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Áfram skal einnig halda með hádegisjóga en slíkt hefur verið prófað áður með góðum árangri.

Kolbrún Erla Pétursdóttir, forstöðumaður bókasafnsins, segir það einmitt tilganginn að gera bókasafnið að samfélagsmiðju fyrir alls kyns fyrir alla. Safnið eigi að vera lifandi og margir viðburðir hluti af þeirri stefnu. Þá má alla sjá á fésbókarvef bókasafnsins.

„Þetta er nýja orðið sem fólk þarf að læra um bókasöfnin að þau vilja vera samfélagsmiðja í hverjum bæ. Brydda upp á hinu og þessu og skapa skemmtilegan vettvang svo fólk geti komið saman og notið. Það vissulega fjöldi viðburða framundan en það er lítið mál að skipuleggja slíkt þegar svo margir eru reiðubúnir að réttar hjálparhönd. Það vissulega margir staðir þar sem fólk getur komið saman eða jafnvel unnið eitt síns liðs en það er mikil sérstaðabókasafna að þar sem slíkt er hægt að gera án þess að greiða neitt fyrir og njóta kyrrðar um leið. Fólk getur verið þar eins og það vill. Það er að koma fólk til mín sem er að halda vinnufundi eða stunda fjarnám og margir sem nýta sér gott og ókeypis aðgengi að staðnum.“

Jóga tengja líklega fæstir við bókasöfn en þau tvö skipti sem safnið hefur haldið hádegisjóga hefur þátttakan verið góð og köll eftir framhaldi.

„Það eru mjög margir búnir að koma og taka þátt og það skemmtilega var að var ekki sami hópurinn sem mætti í fyrsta skiptið og það síðara. Þannig að áhuginn er sannarlega til staðar nema ef vera skyldi hjá karlmönnum því þetta hefur eingöngu verið kvenfólk hingað til en á öllum aldri. Ég vona að við sjáum einhverja karlmenn vera með í næstu skiptin.“

Bókasöfnin eru og eiga að vera samfélagsmiðjur þar sem allir geta komið saman yfir nánast hverju sem er. Hér er einn hópur barna og ungmenna en fjölmargt er gjarnan í boði fyrir þann aldurshóp. Mynd:Aðsend