Helgin: Gestum boðið í rútuferð á opnun myndlistarsýningar
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. okt 2025 09:10 • Uppfært 03. okt 2025 09:51
Listamaðurinn Sigurður Ámundason opnar á morgun listsýningu á þremur stöðum í Fjarðabyggð. Af því tilefni verður gestum við opnunina boðið í rútuferð á milli staða. Fleiri listsýningar, góðgerðaganga, þjóðbúningakynning, bleik messa og íþróttaleikir eru á dagskrá helgarinnar.
„Verkin mín eru þannig að þau geta verið hvert í sínu lagi. Ég held það hafi verið kveikjan að þessu. Okkur fannst skemmtilegt að geta sýnt á mismunandi stöðum. Það skapar tækifæri til að fá fólk með okkur í bíltúr og kíkja á bæina og náttúruna í leiðinni,“ segir Sigurður.
Auglýst opnun sýningarinnar á morgun er frá klukkan 14-18 en rútan leggur af stað frá flugvellinum á Egilsstöðum klukkan 13:00, á að stoppa fyrst við Brugghúsið Beljanda á Breiðdalsvík klukkan 14:00, við Eskifjarðarkirkju klukkan 15:30 og loks við Múlann í Neskaupstað klukkan 16:30. Hún fer síðan aftur til Egilsstaða klukkan 18:00.
Þetta eru sýningarstaðirnir þrír í Fjarðabyggð. Sýningin er haldin á vegum Listasafns ASÍ sem stendur án sýningarsalar sem stendur en dreifir í staðinn listsýningum um landið í samvinnu við aðildarfélög sín á hverjum stað.
Lamborghini og landslag
Sigurður vinnur mest með stórar teikningar en einnig fleiri miðla. Í Neskaupstað verður hann með fjórar stórar teikningar, tvær þeirra í seríu sem hann kallar LLL og snýst um að gera stórbrotin málverk eftir ljósmyndum af landslagi en skeyta inn nýjustu gerð af Lamborghini-sportbíl og skálduðum fyrirtækjamerkjum.
„Mér fannst fyndið að skeyta þessu saman, landslaginu og samtímanum. Bíllinn verður eins konar táknmynd fyrir gullkálfinn. Síðan er þetta íslenska sjálfsmyndin í nútímanum, hvernig tæknivæðingin og hnattvæðingin blandast inn í náttúruna,“ segir Sigurður sem sýnir þar líka upptöku af leikriti sem hann samdi nýverið.
Upphaf og endir heimsins
Á Eskifirði verður myndbandsverk með klippum úr hasarmyndum með rödd yfir sem þylur orðið „kennitala“ í sífellu. Þar verða líka tvær andlitsmyndir af aukaleikurunum frá Hollywood. „Þetta er fólk sem margir kannast við. Listamenn gera gjarnan myndir af einhverjum sem þeir halda mikið upp á en mér fannst fyndnara að teikna aukaleikara sem enginn heldur upp á.
Það er mín leið til að hampa hversdagsleikanum. Það er mikilvægt því við erum alltaf í honum. Þar leynist fegurðin og lífið.“
Myndirnar af manninum og konunni eru eins og Adam og Eva. Síðan er þarna mynd af blómi sem er eins og aldingarðurinn Eden. Myndbandið er síðan túlkun á heimsendi. Þannig að þarna er byrjunin og endirinn á Biblíunni.“
Á Breiðdalsvík verða minni teikningar, drög að verkum sem Sigurður ætlaði sér lengra með en var svo ánægður með þær eins og þær urðu. Sýningin stendur til 26. október.
Listaverk sem byggir á skriðunum á Seyðisfirði
Á morgun klukkan 16:00 opnar líka sýning Linus Lohmann í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Sýningin kallast „Manifold“ og er fyrsta einkasýning Linusar á Austurlandi. Hann er fæddur í Þýskalandi en hefur búið og starfað á Seyðisfirði í meira en áratug. Sýningin er með nýjum eða nýlegum verkum: höggmyndum, innsetningum, teikningum og texta.
Lykilverk sýningarinnar eru gufubeygðir tréskúlptúrar, sem draga fram tækni sem eitt sinn var notuð í skipasmíðastöðinni á Seyðisfirði, en hún eyðilagðist í skriðu árið 2020. Þessir beygðu tréskúlptúrar með tvíræðri formgerð urðu til af reynslu Lohmanns af endurreisn og hreinsun eftir hamfarir; efni sem var snúið og afmyndað, líkt og byggingarnar, sem voru brotnar saman og togaðar og misstu alla merkingu um fyrri tilgang sinn.
Þá er vert að vekja athygli á því að sýningu Skaftfells á Seyðisfirði á verkum Jóhannesar Kjarvals lýkur á morgun. Opið er þá og í dag frá klukkan 12-17.
Kynning á þjóðbúningum
Á sunnudag klukkan 11 verður gengin svokölluð Legganga, í krafti kvenna og kvára, á fjallið Lolla í Norðfirði. Upphafsstaður er gegnt golfvellinum í Grænanesi. Gangan er partur af átaki LífsKrafts sem miðar að því að útrýma leghálskrabbameini á Íslandi.
Á sunnudag frá klukkan 13-16 bjóða Heimilisiðnaðarfélag Íslands og Minjasafn Austurlands upp á þjóðbúningakynningu á safninu. Þar verður hægt að kynnast þjóðbúningnum á ýmsan hátt: sögu hans, þróun og handverksaðferðum. Kynningin er upptaktur að námskeiði í þjóðbúningagerð sem áætlað er að halda á Austurlandi á næsta ári.
Bleik messa verður í Egilsstaðakirkju á sunnudagskvöld klukkan 20:00. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem guðsþjónusta er tengd átaki Krabbameinsfélags Íslands, Bleikum október. Hrefna Eyþórsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Austfjarða, verður ræðumaðurinn. Kvöldmessa verður á sama tíma á Reyðarfirði.
Fyrstu og síðustu heimaleikirnir
FHL leikur sinn síðasta heimaleik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu þegar liðið tekur á móti Þór/KA í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 15:00 á morgun.
Fyrstu heimaleikir Þróttar í blaki verða um helgina þegar HK kemur í heimsókn. Karlaliðin spila klukkan 13:00 á morgun en kvennaliðin klukkan 17:00 á morgun og aftur klukkan 15:00 á sunnudag.