Skip to main content

Helgin: Alþjóðlegur blær í matarveislu og friðarmessu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2025 13:16Uppfært 28. mar 2025 13:17

Matarveislan Connected by Food, þar sem boðið er upp á mat frá ýmsum þjóðlöndum, verður haldin öðru sinni í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun. Tónleikar og gospelmessa eru meðal þess sem í boði eru á Austurlandi um helgina.


Matarveislan var haldin í fyrsta sinn fyrir ári og var fjölsótt. Markmiðið er að tengja saman fólk frá ýmsum þjóðlöndum og er það gert í gegnum mat. Að þessu hefur heldur verið bætt í og hafa rúmlega 20 einstaklingar frá 16 þjóðlöndum undanfarna daga staðið í undirbúningi fyrir veisluna.

Grísk moussaka, skosk lambabaka, finnskir kanilsnúðar, saltfiskur á portúgalska vísu, tékknesk jólakartöflusalat og íslensk kjötsúpa verða meðal þess sem í boði verða í Sláturhúsinu á Egilsstöðum frá klukkan 14:00 á morgun.

Kvennakórinn Héraðsdætur stendur fyrir söngskemmtun í Valaskjálf í kvöld klukkan 20:00. Flutt verða íslensk dægurlög með hljómsveit og gestum undir yfirskriftinni „Einhvers staðar einhvern tímann aftur.“

Austfirski tónlistarmaðurinn Ívar Klausen heldur tónleika á Tehúsinu á Egilsstöðum annað kvöld. Hann flytur þar lög af væntanlegri sólóplötu sinni. Hann kemur fram með rafgítarinn og Casio-trommuheila klukkan 20:30.

Þá verður á sunnudagskvöld klukkan 20:00 gospelmessa í Egilsstaðakirkju. Yfirskriftin er „Biðjum fyrir friði“ í ljósi alls þess sem gengur á í heiminum. Messan sjálf verður á íslensku en einnig verða bænir, lestrar og söngvar á ensku, rúmensku, úkraínsku, skosku, þýsku, spænsku, ungversku og fleiri málum.