Helgin; Álfaborgarsjens, Neistaflug og Hæglætishátíð

„Það er alveg sama hvað við reynum árlega að koma hátíðinni að í landsmiðlunum þegar auglýsingamaskínan kringum verslunarmannahelgina fer af stað – það er eins og búið sé að ákveða að þetta sé ekkert, hér sé nýbúið að halda Bræðslu. Það er hinn mesti misskilningur því við fáum alltaf fína aðsókn,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, einn þeirra sem stendur fyrir hátíðinni Álfaborgarsjens á Borgarfirði eystri um helgina.



„Við erum með mjög fjölbreytta dagskrá um helgina. Hið árlega hagyrðingamót verður á föstudaginn og á laugardaginn bjóðum við upp á samsöng eða „Singalong“ með írksu þema. Á sunnudagskvöldið verður svo hin margfræga sýning „Dansaðu fyrir mig“, með stórvini okkar Ármanni Einarssyni, Pétri Ármannssyni og Brogan Davison.“

Íslandsmet í hagyrðingamótum
Ásgrímur Ingi segir að löngu sé búið að slá Íslandsmet í fjölda hagyrðingamóta á Borgarfirði. „Þegar við vorum að byrja með þetta voru slík mót haldin víða um land og voru hálfgerð tískubylgja. Við höfum aldrei hugsað hagyrðingamótin sem tískufyrirbrigði heldur höfum haldið þeim ferskum með því að fá reglulega inn nýjan mannskap og stjórnanda. Í ár er það enginn annar en skemmtikrafturinn Gísli Einarsson sem stýrir mótinu og eigum við því von á góðu.“

Það má rigna eldi og brennisteini
Allir viðburðirnir fara fram í Fjarðaborg. „Það þarf því ekki að treysta á veðurguðina þessa helgi og allt í góðu þó rigni eldi og brennisteini. Það er meira að segja búið að gera við þakið og því engin hætta á að veðrið hafi nokkur áhrif á samkomuhald.“

Þetta er svo sannarlega ekki það eina sem verður til skemmtunar í fjórðungnum um helgina;

Neistaflug í Neskaupstað
Neistaflugið í Neskaupstað verður sett í kvöld og stendur til sunnudags. Þá verður Barðsneshlaupið á morgun og hér má lesa frétt um það.

Hæglætishátíð í Havarí
Hæglætishátíðin á Havarí í Berufirði verður á sínum stað og hefst í dag. Ratleikur, Thai chi á túninu, varðeldur og tónlist er meðal þess sem verður í boði um helgina.

Magni og Tommi Tomm á Kaffi Láru
Magni Ásgeirsson og Tommi Tomm verða með verslunarmannahelgarball á Kaffi Láru á Seyðisfirði á morgun.

Ljósmyndasýning á Skriðuklaustri
Ljósmyndasýningin Mannlífsmyndir frá fjarlægum slóðum opnar á sunnudaginn á Skriðuklaustri. Á henni gefur að líta svarthvítar myndir sem Þráinn Lárusson hefur tekið á ferðalögum sínum af fólki sem hefur orðið á vegi hans. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.