Heimskona frá Seyðisfirði sem veitir nýja sýn á líf alþjóðlegra athafnakvenna
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. ágú 2025 16:53 • Uppfært 19. ágú 2025 16:54
Sigríður Matthíasdóttir, sagnfræðingur á Seyðisfirði, gaf síðasta haust út bók um athafnakonuna Pálínu Waage hjá einu virtasta fræðaforlagi heims. Sigríður lýsir Pálínu sem heimsborgara sem fyrst og fremst hafi farið af stað í viðskipti og rekstur til að framfleyta fjölskyldu sinni. Grunnurinn að um tíu ára rannsóknum Sigríðar var einstakt safn heimilda sem hún komst í.
Sigríður flutti til Seyðisfjarðar fyrir um áratug og komst í snertingu við einstakar heimildir sem urðu til þess að hún fór að rannsaka Pálínu.
„Alla sagnfræðinga dreymir um að finna svona persónulegar heimildir og svona gerist bara einu sinni á starfsævinni,” segir Sigríður sem fékk sjálfsævisögu, dagbækur og bréf Pálínu Waage óvænt í fangið, eða öllu heldur Dropbox-ið sitt frá íbúa á Seyðisfirði.
Þessar heimildir urðu grunnur að bókinni „Entrepreneurship and Agency as Lived Experience: A Transnational Biography of Palina Waage” sem Sigríður gaf út hjá Palgrave MacMillan síðastliðið haust.
Staðföst og ákveðin frá unga aldri
Pálína Waage, fædd 1864, sýndi snemma sérstaka hæfileika og einbeittan vilja. Þegar hún var aðeins 17 ára var hún send til að innheimta greiðslu fyrir landakaup. Í stað þess að samþykkja umsamið verð, hækkaði Pálína verðið um 50%, eftir að hafa heyrt utan að sér að jörðin væri seld á undirverði.
„Kaupandinn varð öskuillur og það varð mikið þjark áður en hann fór í fússi. Síðan kom hann aftur daginn eftir, með héraðslækninn með sér, og borgaði uppsett verð. Þarna er 17 ára stelpa sem stendur uppi í hárinu á þessum köllum. Það segir sitt,” útskýrir Sigríður.
Vesturheimsdvöl og upphaf viðskiptaferils
Pálína menntaði sig í kvennaskóla á Eskifirði og lærði ensku hjá frú Hemmert á Seyðisfirði áður en hún hélt til Kanada 1889. Þar bjó hún í tvö ár og upplifði að sögn Sigríðar „mikið ævintýri”.
„Við höfum haft einfalda mynd af Vesturförunum. Auðvitað fóru stórir hópar út úr örbirgð en það eru líka dæmi um fólk sem fór til að skoða heiminn. Þannig skrifar Pálína,” segir Sigríður.
Eftir heimkomuna gerði Pálína út árabát á Mjóafirði, sem var sjaldgæft fyrir konur á þeim tíma. Hún giftist einum sjómannanna, Eyjólfi Jónssyni Waage, og árið 1899 fluttu þau til Seyðisfjarðar þar sem viðskiptasaga hennar hófst fyrir alvöru.
Fyrstu skrefin í viðskiptum á Seyðisfirði
Fyrstu árin á Seyðisfirði voru Pálínu og Eyjólfi erfið. Fjölskyldan var eignalítil, en með hjálp bræðra sinna keypti Pálína hús í Mjóafirði sem var flutt til Seyðisfjarðar og reist á lóð sem hún fékk í gegnum frænda sinn.
Pálína sýndi einstaka hugvitssemi við að markaðssetja sig. Hún fór fyrst á fætur á morgnana og kveikti upp í arninum svo Héraðsbúar, á leið í kaupstað yfir heiðar, sáu reyk úr skorsteini og vissu að þar væri hægt að fá kaffi.
Sigríður lýsir einstökum dugnað Pálínu: „Í eitt skipti kom hingað norskt skip með 400 manna áhöfn. Vertinn á Seyðisfirði neitaði að gefa þeim að borða því það var helgur dagur og þá mátti ekki vinna. Þá var komin upp krísa og Pálína var beðin um að taka þetta að sér.”
Frá veitingaþjónustu til verslunarreksturs
Árið 1907 hóf Pálína að selja sekkjavöru og um tíu árum síðar þróaði hún starfsemina yfir í verslun sem hún rak lengst af með syni sínum Jóni. Þau byggðu upp verslun sem átti eftir að starfa í áratugi á Seyðisfirði.
„Í mínum huga er Pálína frumkvöðull á sviði verslunar og viðskipta almennt, því verslunin lék hlutverk í þeirri þróun að gera neysluvörur aðgengilegar öllum almenningi, ekki bara þeim sem tilheyrðu efri stéttum þjóðfélagsins,” segir Sigríður.
Athyglisvert er að verslunin var kennd við eiginmann Pálínu: Verslun E.J. Waage - þar sem giftar konur voru ekki fjárráða. „Hún átti greinilega hugmyndina að því að stofna fyrirtækið. En þegar þurfti að leysa út vörur þá var það Eyjólfur sem gerði það því hún hafði ekki heimild til þess. „Ef hún hefði ekki skrifað þessar heimildir þá vissum við ekkert um hennar hlut,” bætir Sigríður við.
Alþjóðleg áhrif á Austurlandi
Saga Pálínu varpar ljósi á alþjóðlegt umhverfi Austurlands á þessum tíma. „Seyðisfjörður var á vissan hátt þverþjóðlegur staður. Pálína var í stöðugum samskiptum við útlendinga í veitingahúsinu,” segir Sigríður.
„Það er að koma inn í sagnfræðina að við hættum að skoða okkur sem kyrrstæð sveitasamfélög þar sem allir voru bara á sínum bletti. Það er meiri hreyfanleiki í þessu samfélagi heldur en við höfum áttað okkur á hingað til. Á Austurlandi á þessum tíma var alls konar fólk enda er svæðið næst meginlandi Evrópu.”
Alþjóðlegt framlag til kynjasögu
Saga Pálínu hefur víðtækari þýðingu en bara fyrir Íslendinga. Innan kynjasögufræða hafa rannsóknir á sögu athafnakvenna aukist undanfarin 20 ár.
„Árið 2020 skrifuðu breskar fræðikonur að ekkert benti til þess að athafnakonur hafi neitt rekið fyrirtæki sín öðruvísi, eða litið á sig öðruvísi, heldur en karlar í rekstri. Fram til þessa hefur gjarnan verið talið að þær litu ekki á sig þannig að þær væru í viðskiptum, heldur væru bara að sjá fyrir fjölskyldunni,” segir Sigríður.
„Fyrir því hafa hins vegar verið litlar heimildir – nema að Pálína skrifaði akkúrat um reynslu sína af því að stofna og reka fyrirtæki sem og fjármálum sínum almennt.”
Sigríður hefur kynnt sögu Pálínu víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum, Osló og Finnlandi. „Mér finnst mjög gaman að kynna hana því hún vekur áhuga. Ég sé fyrir mér að halda áfram að vinna með hana og hennar heimildir og skrifa samanburðargreinar,” segir Sigríður að lokum.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.