Heimir og Páll ráðnir þjálfarar hjá Knattspyrnufélagi Fjarðabyggðar

Í dag skrifaði Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF) undir samninga við þjálfarana Heimi Þorsteinsson og Pál Guðlaugsson. Markmið þeirra er að halda liðinu í 1. deild. Ekkert liggur ljóst fyrir um breytingar á liðinu.

kff3.jpg

Heimir þjálfaði áður hjá KFF á árunum 2004-2005. Einnig stjórnaði hann liðinu í þremur síðustu leikjunum á nýafstöðnu tímabili. Heimir mun sjá um öll samskipti á milli leikmanna og stjórnar og er talsmaður við fjölmiðla fyrir hönd þjálfara.

Páll er afar reyndur þjálfari sem m.a hefur stýrt landsliði Færeyja. Einnig þjálfaði hann Keflavík og Leiftur í úrvalsdeild hér á landi. Nú síðast þjálfaði Páll nágrannaliðið í Leikni Fáskrúðsfirði í 3.deildinni, en Heimir og Páll munu einnig hafa umsjón með 2.flokki Fjarðabyggðar/Leiknis. Páll mun gegna starfi knattspyrnustjóra KFF og vera faglegur stjórnandi þjálfunar í meistaraflokkum karla og kvenna hjá KFF auk þess að vera tengiliður við yngri flokka Fjarðabyggðar.

,,Við verðum saman í þessu," sögðu þeir Heimir og Páll við undirskrift samningsins í Veiðiflugunni á Reyðarfirði í dag. ,,Þetta er mjög ögrandi fyrir mig sem þjálfara og persónu" sagði Páll. ,,Það sem er búið að vera í gangi síðan ég kom hingað í febrúar er afar gott. Þetta er eitthvað sem þurfti til og eitthvað það jákvæðasta sem ég hef upplifað síðan ég kom hingað."

kff2.jpg

2. flokkur gullmoli í Fjarðabyggð

Heimir segir mikið verk óunnið í uppbyggingu liðsins. ,,Það er mikið búið en í rauninni miklu meira eftir. Sameiningin er sjö ára gömul í meistaraflokknum og við komnir með mjög sterkt lið sem er að ganga í gegnum töluverðar breytingar núna. Við vitum ekki útkomuna út úr því. Það er haugur af ungum strákum hér." Páll segir hvað mest spennandi að nú séu yfir tuttugu manns í öðrum flokki, í fyrsta skipti. ,,Í þessu árferði í dag finnst mér það gullmoli fyrir Fjarðabyggð og félagið. Til eru félög á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ekki einu sinni annan flokk."

Markmiðið hjá þjálfurunum er að halda liðinu í fyrstu deild. ,,Við erum ekki búnir að loka leikmannahóp og ekki hitta alla strákana. Við höfum ekki afskrifað þá sem hafa tilkynnt að þeir séu jafnvel að fara að hvíla sig og taka hlé. Það er svo margt óunnið, en fyrstu deildar sæti áfram hlýtur að vera lágmarkskrafa," segir Heimir.

Páll mun þjálfa Leikni áfram. ,,Þetta er viss hagræðing og fyrst og fremst hugsað fyrir svæðið. Samstarfið hjá Leikni og KFF hefur verið mikið og mun fara vaxandi. Við reiknum með áframhaldandi leikmannaskiptum milli liðanna."

Þeir sjá ekkert augljóst í breytingum á leikmönnum. Ýmislegt sé að gerast en ekkert klárt.

Sjö ungir leikmenn komnir á samning hjá KFF 

Einnig skrifuðu nokkrir ungir leikmenn undir samninga við KFF í dag. Er það liður í þeirri stefnu félagsins að auka enn áhersluna á að byggja liðið á uppöldum leikmönnum en KFF hefur sem kunnugt er haft mjög hátt hlutfall af þeim í sínum röðum. Það mun áfram vera stolt félagsins að byggja liðið upp á þeirri hugmyndafræði að gefa ungum leikmönnum möguleika á að leika með meistaraflokki í sinni heimabyggð. Ungu leikmennirnir sem skrifuðu undir í dag heita Stefán Þór Eysteinsson, Sævar Örn Harðarson, Haraldur Bergvinsson, Martin Sindri Rosenthal, Óli Freyr Axelsson, Fannar Árnason og Andri Þór Magnússon.

Einn er sá þáttur sem oft gleymist þegar starfsemi íþróttafélaga er rædd og er það starf stjórnar. Hér er um sjálfboðastarf að ræða en þetta er þó sá þáttur í starfinu sem allt byggist á. Undanfarin ár hefur starfsemi KFF verið borin uppi af mjög fámennum hópi en stjórn KFF hyggst breyta því og hefur undirbúið nýtt skipurit sem á að tengja starf aðildarfélaganna og yngri flokka Fjarðabyggðar enn betur inn í starfið og verður það vonandi staðfest á aðalfundi félagsins í lok janúar. Með því mun upplýsingastreymið ganga betur á milli íþróttafélaga í annars mjög flóknu samfélagi sem Fjarðabyggð er. KFF skorar á íbúa Fjarðabyggðar að fylgjast með félaginu á vefsíðunni www.kff.is.

kff1.jpg

Fjárhagurinn á lygnari sjó þrátt fyrir að styrktaraðilar hverfi frá að sinni 

Bjarni Ólafur Birkisson, formaður, segir fjárhagslega stöðu KFF sæmilega. Félagið hafi fengið tvær og hálfa milljón fyrirfram frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð þegar fór að kreppa að og útséð með að styrkir voru að minnka til muna. ,,Við fórum þá fram á þessa fyrirframgreiðslu, en ekki aukinn styrk, og ætluðum þar af leiðandi að mæta þessum halla sem kom og erum búnir að fara yfir allt í rekstri félagsins og skera niður á öllum sviðum. Við sjáum fram á að verða komnir á réttan kjöl strax á nýju ári."

Landsbankinn hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum KFF og fékk Bjarni bréf í dag þess efnis að ekki yrði um frekari styrki að ræða að svo stöddu. ,,Á næsta ári verða málin skoðuð að nýju þegar búið er að koma Nýja landsbankanum í gang, hvort og hvernig þeir komi að því að styrkja okkur. Ég á von á að við þraukum og hef raunar engar áhyggjur af því."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.