Herinn bað heimamenn um að þrífa eftir blóðbað á Búðareyri
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. júl 2025 15:10 • Uppfært 08. júl 2025 15:14
Í ár eru 85 ár síðan breskur her kom að landi á Reyðarfirði en íbúar þar minnast þess flest ár um þetta leyti með hernámsdeginum. Í skjalaskrá Þjóðskjalasafnsins er hægt að fletta upp sérstaklega skjölum sem tengjast stríðsárunum og þar er að finna nokkrar sögur af Austurlandi, meðal annars frá Reyðarfirði.
Í nóvember árið 1940 sendi yfirstjórn breska hersins í Reykjavík Íslendingum bréf þar sem kvartað var yfir því að nokkur þúsund fjár hafi verið slátrað nærri bækistöðvum Konunglega breska flughersins á Búðareyri. Áhyggjum var lýst af því að þetta ógnaði heilnæmi búðanna og væri hermönnum þar til ama.
„Yfirstjórn flughersins yrði þakklát ef gerðar yrðu ráðstafanir til að fjarlægja ruslið og grípa til aðgerða, ef kostur er til, til að koma í veg fyrir að óþægindin endurtaki sig.“
Bréfinu lýkur á breskum kurteisisorðum um að „Hr. Ross yrði ánægður ef málið fengi samúðarfulla athygli.“ Ekki er í skjalasafninu að finna upplýsingar um viðbrögðin við umleitaninni.
Hernámsdagurinn sjálfur á Reyðarfirði er 1. júlí. Þann dag komu einnig hermenn til Eskifjarðar og daginn áður til Seyðisfjarðar. Þangað hafði reyndar komið flokkur strax í maí til að verja sæsímastrenginn sem þangað lá.
Leitað að Þjóðverjum á Skriðuklaustri
Setuliðið á Austfjörðum virðist hafa tekið til óspilltra málana. Í skjalasafninu má finna símskeyti frá Gunnari Gunnarssyni, skáldi á Skriðuklaustri, til íslenskra yfirvalda þar sem hann kvartar yfir að hermenn hafi þann 5. júlí gert húsleit þvert gegn hans vilja og honum verið hótað vopnavaldi.
Gunnar hafði sterk tengsl við Þýskaland og í svari hersins til íslenskra yfirvalda segir að ástæða hafi verið til að ganga um skugga um hvort Þjóðverjar leyndust á hans landareign, jafnvel án þess að hann vissi til.
Einstök góðmennska fjölskyldunnar á Veturhúsum
Þá er í skjalasafninu þakkarbréf frá yfirhershöfðingja Breta á Íslandi til Íslendinga þar sem sérstakar þakkir eru sendar fjölskyldunni á Veturhúsum í Eskifirði sem átti stóran þátt í að rúmlega 40 hermönnum á leið frá Reyðarfirði til Eskifjarðar yfir Eskifjarðarheiði í janúar 1942 var bjargað.
Þar er talað um „rausnarskap og gestrisni“ Páls Pálssonar og fjölskyldu hans á Veturhúsum. Henni er lýst sem „dásamlegu fordæmi um sanna kristna góðmennsku.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.