Skip to main content

Heilsubót að tína rusl á víðavangi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. mar 2025 14:36Uppfært 13. mar 2025 14:36

Nýr sveitarstjóri Múlaþings, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, gerði stopp á göngutúr sínum á Egilsstöðum fyrir nokkrum dögum síðan þegar hún vitnaði eldri hjón í sömu erindum stoppa reglulega og tína upp rusl á víðavangi. Var sveitarstjórinn fljótur að ná mynd af þessum heiðurshjónum.

Þar um að ræða hjónin Ólöfu Zophaníusdóttur og Svein Þór Herjólfsson sem fara reglulega í heilsubótargöngur en gera gott betur með því að hirða upp allt það rusl sem þau rekast á á leið sinni.

Nóg er af ruslinu á víðavangi eins og forsíðumyndin sýnir en þar gefur að líta eina ellefu plastpoka fasta í trjánum auk olíubrúsa rétt fyrir ofan eitt helsta íþróttasvæði Austurlands á Vilhjálmsvelli en myndin sú var tekin á sunnudaginn var.

Þegar Dagmar Ýr hrósaði hjónunum fyrir framtakið var þakkað fyrir en ekki gert ýkja mikið úr. Hjónin bæði hætt að vinna og fátt betra en reglulegar gönguferðir fyrir heilsuna. Ef hægt að passa aðeins upp á fallegt umhverfið í leiðinni sé það stór plús. Hvöttu hjónin fyrirtækin á Egilsstöðum og aðra bæjarbúa til að gera hið sama nú þegar frost er að fara úr jörðu eftir veturinn.