Heiður að fá að sýna í Tanga
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. jún 2025 09:47 • Uppfært 11. jún 2025 16:48
Boga Kristinsdóttir sýnir ljósmyndir sem hún hefur tekið á ferðum sínum um landið í Gallerí Kolfreyju á Fákskrúðsfirði í júní. Hún segist hafa heillast af húsinu sem hún hafi reglulega heimsótt sem leiðsögumaður ferðamanna.
„Ég byrjaði að koma í húsið á hringferðum sem ég fer um landið. Þetta er ótrúlega magnað hús með mikla sögu.
Ég á vin sem er listamaður og hefur sýnt víða um heim. Sá var mjög hrifinn af rýminu,“ segir Boga um Tanga, gamalt endurgert hús á Fáskrúðsfirði sem hýsir handverksmarkaðinn sem kenndur er við Kolfreyju.
Húsið Tangi var upphaflega reist árið 1895 sem verslunarhús. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga keypti húsin við stofnun árið 1933 og rak í því verslun fram til ársins 1980, þegar ný verslun var byggð. Kaupfélagsstjórinn bjó einnig í húsinu um tíma.
„Vanalega hanga myndir af kaupfélagsstjórnunum á veggjum þar sem sýningin er – en þeir fara í hvíldarinnlögn meðan hún er uppi,“ segir Boga.
Hún kveðst alltaf hafa notið mikillar gestrisni þegar hún hefur komið með hópa sína á Fáskrúðsfjörð. „Fólki finnst gaman að koma þarna inn og konurnar á bakvið Kolfreyju eru miklir gestgjafar. Við erum þarna á veturna þegar færri eru á ferðinni um leið og við heimsækjum Norðurljósasetrið. Ég hreifst af þessari fegurð sem þarna var opnuð fyrir okkur og svo þróaðist samtalið út í hvort ég gæti ekki haldið ljósmyndasýningu.“
Boga, sem er fædd og alin upp vestur í Dalasýslu, segir myndirnar teknar á ferðum hennar um landið. „Ég hef þróað ljósmyndaáhugann með mér í gegnum tíðina. Þetta eru augnablik sem ég fanga. Við erum kannski á gangi og svo birtist myndefnið.“
Þetta er fyrsta sýning Bogu. Á henni er 21 mynd, þar af ein frá Austurland.