Skip to main content

Hefja skipstjórnarnám í VA í haust

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. maí 2025 14:19Uppfært 28. maí 2025 14:23

Verkmenntaskóli Austurlands mun hefja kennslu í skipstjórn á A-stigi í haust. Skólameistari segir ágæta aðsókn í námið. Skipstjórnarhermir sem skólinn eignaðist fyrir tæpum tveimur árum er ein af forsendum kennslunnar.


Námið sem hefst í haust kallast skipstjórn á A-stigi og veitir réttindi til stjórnunar skipa allt að 24ra metra. Birgir Jónsson, skólameistari, segir að forsenda þess að fara af stað með slíkt nám sé að 10-15 nemendur séu tryggir og því lágmarki verið náð. Enn getur bæst í hópinn en skráningarfrestur rennur ekki út fyrr en í ágúst.

Mikil ásókn í smáskipanám


VA eignaðist haustið 2023 skipstjórnarhermi. Í kjölfarið fór skólinn að bjóða upp á skipstjórnarnám sem veitti réttindi á báta sem eru allt að 15 metrar á lengd, svokallað smáskipanám. Birgir segir það nám hafa notið vinsælda. Annar hópurinn sem fer í gegnum það nám á að útskrifast í október og með honum munu yfir 60 nemendur hafa lokið því. „Við vildum kanna hvort það væri eftirspurn í samfélaginu eftir að öðlast frekari réttindi og svo virðist vera,“ segir Birgir.

Fyrirkomulag námsins liggur ekki endanlega fyrir en stefnt er að því að hafa námið sveigjanlegt þannig að nemendur geti lært meðfram vinnu. Það þýðir að verklegt nám er tekið í lotum en bóklegt nám í fjarnámi. Reiknað er með að námið taki 1,5 ár. „Svo sjáum við hvort eftirspurn sé eftir að við förum enn hærra,“ segir Birgir.